Þórsararnir Rúnar Steingrímsson og Ragnar Sverrisson voru á dögunum sæmdir heiðursfélaganafnbót á samkomu í tilefni 110 ára afmælis félagsins. Þetta segir í tilkynningu á heimasíðu félagsins, þar sem einnig er greint frá Þórsurum sem hlutu gull- silfur- og bronsmerki félagsins á athöfninni.
Sautján manns hlutu gullmerki, átta manns silfurmerki og hvorki meira né minna en sjötíu manns hlutu bronsmerki. Nöfn allra heiðursmerkjahafa má skoða hér. Eftirfarandi umsagnir um heiðursfélagana tvo voru birtar á heimasíðu Þórs.
Rúnar Steingrímsson – „Maðurinn á bak við tjöldin“
Rúnar Steingrímsson þarf vart að kynna fyrir nokkrum manni, sem komið hefur að íþróttum síðustu áratugina. Rúnar stundaði íþróttir á sínum yngri árum og fór alla leið upp í meistaraflokk í þeim báðum en vegna þrálátra meiðsla neyddist hann til að leggja skóna á hilluna. Rúnar fór ekki langt frá knattspyrnunni eftir meiðslin því hann reimaði á sig takkaskó, sem hentuðu dómara og hengdi dómaraflautu um háls sér og hóf farsælan feril, sem knattspyrnudómari og var þar um langt skeið í fremstu röð. Það þótti honum afbragðsleið til að halda tengslum við íþróttina og vera í góðum félagsskap, eins og hann komst að orði í viðtali við Skapta Hallgrímsson hjá Morgunblaðinu 27. febrúar 1999.
Rúnar hefur verið og er enn afar dug mikill í félagsmálum hjá Þór og síðast enn ekki síst afar öflugur sjálfboðaliði. Hefur til fjölda ára sinnt hlutverki, sem gæslumaður á knattspyrnu- og körfuboltaleikjum. Á körfuboltaleikjum er hann hluti af stóru og kraftmiklu gengi, sem sér um að umgjörð og frágangur fyrir og eftir körfuboltaleiki þar er séð til þess að allt sé upp á 10. Þá hefur hann í áraraðir verið hluti af gengi góðra manna, sem keyra körfuboltaliðin og knattspyrnuliðin okkar í útileiki. Þegar kemur að vinnuverkefnum hvers konar þá er Rúnar fyrstur til að mæta en hann fer ekki fyrstur heim svo mikið er víst.
Rúnar er góð fyrirmynd hinna fjölmörgu sjálfboðaliða og hvatning allra, sem vilja leggja sitt af mörkum við að gera sínu félagi vel og um leið samfélaginu öllu. Rúnari hefur áður verið veitt silfur og gullmerki Þórs 95 ára afmæli Þórs 2010 var honum veitt silfurmerki KSÍ. Rúnar er einn fjölmargra „Maðurinn á bak við tjöldin“
Ragnar Sverrisson – Stórkaupmaður og Þórsari
Ragnar Sverrisson kaupmaður og stór Þórsari er maður, sem hefur ávallt látið verkin tala og við þá iðju hefur hann látið hendur standa fram úr ermum. Í ár eru um 70 ár síðan hann gerðist félagi í Þór, annað kom ekki til greina enda allt hans fólk sannir Þórsarar. Sem, barn voru hverskyns knattleikir hans og félaga á Eyrinni daglegt brauð. En snemma varð handboltinn hans yndi en þá íþrótt stundaði hann af mikilli eljusemi og fór alla leið upp í meistaraflokk þar, sem sú göfuga íþrótt var stunduð í Rafveitu-skemmunni og síðar í íþrótta-skemmunni. Raggi var m.a. einn þeirra, sem skipuðu lið Þórs sem ávann sér rétt til keppni í 1. deild karla fyrst liða á Akureyri.
Þegar synir Ragga fóru að stunda iðkun skíðaíþróttarinnar þá varð fjallið hans annað heimili. Þar var hann með mörgum góðum köppum við vinnu við allt sem viðkom æfinga og keppni hjá Akureyskum ungmennum. Þar var hann í góðum hópi manna m.a. Þórsaranum Jóhanni Haukssyni og KA manninum Óðni Árnasyni. Einnig var Raggi var duglegur að fylgja drengjunum sínum eftir á þeirra knattspyrnuferli í unglingastarfi félagsins.
Þegar Þór flutti í Þorpið og settist að á þeim stað, sem félagið hefur nú fest rætur vann hann dag og nótt með fjölda sjálfboðaliða við að koma svæðinu í nothæft horf. Seint á áttunda áratug síðustu aldar þ.e.a.s. 1987 hófst bygging Hamars og Raggi spilaði þar stórt hlutverk við þær framkvæmdir. Hann sá m.a. um að þegar múrarar voru að verki við múrhúðun eða renna í gólf sá Raggi um að aldrei yrði bið á næstu hræru, engin mátti vera aðgerðarlaus lengi.
Eftir að Hamar var byggður eða í kringum 1990 fannst Ragnari sem að íþróttafólki Þórs væri ekki gert nógu hátt undir höfði við val á íþróttafólki Þórs, sem því miður hafði ekki verið með reglulegum hætti. Þá tók okkar maður til sinna ráða og setti á fót nefnd sem skildi framvegis gera hlutina með sómasamlegum hætti. Raggi keypti stóran farandbikar handa íþróttamanni Þórs og eignarbikara fyrir íþróttafólks hverra deildar. Síðan hefur besta íþróttafólks hverju sinni verið heiðrað með þessum hætti með aðkomu Ragga.
UMMÆLI