Sá fyrir sér að lífinu með tvíburunum sínum væri lokið

Anna Sigrún Benediktsdóttir, íbúi á Reyðarfirði, sagði á Facebook síðu sinni frá erfiðri lífsreynslu sem hún lenti í snemma í morgun þegar hún fór í bíltúr með ungan son sinn. Við fengum leyfi Önnu til að birta stöðuuppfærsluna í heild sinni:

Anna Sigrún Benediktsdóttir skrifar

Óskar Þór svaf illa í nótt. Hann er að díla við endalausa eyrnabólgu og á erfitt með að sofa nema sitjandi. 

Ég ákvað því klukkan rétt fyrir 7 í morgun að fara smá rúnt með hann, reyna að leyfa honum að hvílast aðeins. Setti róandi tónlist á, hækkaði hitann í bílnum og setti stefnuna á að keyra á Eskifjörð og til baka enda sofnar hann yfirleitt um leið og við keyrum útúr bænum.

Við erum rétt komin framhjá Alcoa afleggjaranum þegar ég sé bíl koma á móti á ofsahraða og bílstjórinn missir stjórn. Bíllinn svigar á milli akreina og nálgast okkur svo hratt á okkar vegarhelmingi að ég gat ekki einu sinni ímyndað mér annan endi á þessu en hræðilegan. Ég var búin að hægja alveg niður og var að reyna að taka ákvörðun á milli þess að fara yfir á öfugan vegarhelming og treysta því að hann svigaði ekki aftur yfir eða þá að hreinlega keyra bara útaf. Ákvörðun sem allt í einu var svo flókin þegar ég var ekki bara ein í bílnum.

Það hafa ekki verið meira en 2 metrar á milli bílanna þegar hinn keyrir sjálfur útaf en veltur ekki svo ég var nokkuð viss um að bílstjórinn var heill.

3-4 mínútum seinna skjögrar bílstjórinn uppá veg. Skjögrar já, enda blindhaugafullur.

Ég hefði ekki verið ábyrg gjörða minna ef Óskar hefði ekki verið í aftursætinu og getað horft á. Sem betur fer kom þarna að annar góður maður sem beið með okkur eftir lögreglunni.

Bílstjórinn bar fyrir sig þeirri ástæðu að vera ungur og vitlaus. Ungur og vitlaus, já.

Kæra fólk. Ekki drekka og keyra. Aldur og skortur á greind verður ekki tekin sem gild afsökun þegar þú (svo ungur og vitlaus sko) hræðir, meiðir, slasar eða jafnvel drepur sjálfan þig og aðra. Lítið barn með eyrnabólgu sem langaði bara að sofa smá.
Gerið það. Bara plís.

Þessi færsla er skrifuð í geðshræringu og áfalli hjá nýbakaðri móður sem í augnablik sá fyrir sér að lífinu með tvíburunum sínum væri lokið. Allt vegna þess að einhver ókunnugur var ‘ungur og vitlaus’.

 

Sambíó

UMMÆLI