SA stelpur í listhlaupi með frábæran árangur á Íslandsmeistaramótinu

Marta María Jóhannsdóttir varð Íslandsmeistari í Junior flokki. Mynd: Skautasamband Íslands.

Íslandsmeistaramót Skautasambands Íslands ásamt Íslandsmóti barna og unglinga var haldið í skautahöllinni á Akureyri um helgina. Mótið var haldið seinnipart laugardags sökum veðurs en nokkrir keppendur þurftu að draga sig úr keppni vegna þess.

Samt sem áður var mótið nokkuð fjölmennt og stúlkur frá SA hrúguðu að sér verðlaunasætum í öllum keppnisflokkum. Á Íslandsmóti barna og unglinga keppa aðeins yngri flokkar og þar eru stelpurnar einungis með eitt prógramm sem kallast frjálst prógramm og er frá 3-4 mínútur að lengd.

Í keppnisflokknum Chicks, sem er flokkur fyrir 8 ára og yngri keppendur, voru sex keppendur en það var hún Sædís Heba Guðmundsdóttir frá SA sem sigraði flokkinn með 19,28 stig. Indíana Rós Ómarsdóttir frá SA hreppti svo þriðja sætið með 17,31 stig.

Næsti keppnisflokkur á eftir ber heitið Cubs, og er fyrir 10 ára og yngri keppendur. Þar var það Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir sem sigraði með 25,58 stig. Strax á eftir kom Katrín Sól Þórhallsdóttir með 21,68 stig.

Í Basic Novice A kepptu 15 stelpur en SA hreppti silfrið þegar Júlía Rós Viðarsdóttir nældi sér í 27,75 stig. Í Basic Novice B, sem er jafnframt síðasti flokkurinn á Íslandsmóti barna og unglinga, fékk SA einnig silfrið þegar Eva Björg Halldórsdóttir fékk 25,66 stig.

Eldri flokkar kepptu á Íslandsmeistaramótinu en það samanstendur af þremur flokkum: Advanced Novice, Junior og Senior. Í þeim flokkum er keppt með tvö prógrömm sem skiptast í stutt prógramm og frjálst prógramm. Eins og nöfnin gefa til kynna er annað prógrammið stutt og hitt lengra. Þannig teygir sú keppni sig yfir tvo daga í stað eins svo keppendur fái tíma til að hvíla sig á milli keppna.

Skautafélag Akureyrar átti enga keppendur í Senior en í þeim flokki voru aðeins tveir keppendur, báðir frá Skautafélaginu Birninum.
Í Junior átti SA hins vegar virkilega öruggan Íslandsmeistara þegar Marta María hreppti gullið með 96,62 í heildarstig. Marta varð strax efst eftir stutta prógrammið og hélt yfirburðum áfram eftir frjálsa prógrammið. Þetta er fyrsti veturinn sem Marta keppir í þessum flokki en hefur þegar sigrað öll mót sem hún hefur keppt í hérlendis.

Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir varð Íslandsmeistari í keppnisflokknum Advanced Novice. Mynd: Skautasamband Íslands.

Í Advanced Novice kepptu níu stelpur í æsispennandi keppni þar sem Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir varð Íslandsmeistari með 101,70 stig. Aldís Kara Bergsdóttir nældi sér svo í þriðja sætið með 71,97 stig.

Nú eftir Íslandsmótið halda keppendur í jólafrí frá keppnum og snúa aftur í lok janúar á Reykjavík International Games, sem haldið verður í Skautahöllinni í Laugardal 26. -28. janúar. RIG leikarnir eru alþjóðlegt mót þar sem von er á fjölmörgum erlendum keppendum. Það verður virkilega skemmtilegt að fylgjast með því hvernig skautararnir frá SA standa sig á mótinu en stelpurnar hafa náð frammúrskarandi árangri á keppnum í vetur.

Íslandsmeistarar á Íslandsmeistaramótinu 2017. Frá vinstri: Júlía Grétarsdóttir, SB – Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir, SA – Marta María Jóhannsdóttir, SA. Mynd: Skautasamband Íslands.

 

UMMÆLI