Safn tímanna í bókinni hennar ömmu

Safn tímanna í bókinni hennar ömmu

Getur verið að Matthías Jochumsson hafi skrifað til ömmu Rósu (f. 1904) í litlu stílabókina hennar? Í bókina safnaði amma ljóðum og heilræðum frá samferðafólki á fyrstu árum 20. aldarinnar. Bókin er þannig nokkurs konar safn tímanna sem hún lifði á sem ung stúlka. Í dag, 18. nóvember, eru 100 ár liðin frá því að Matthías kvaddi. Sagan um stílabókina hennar ömmu sem hefur að geyma ljóð þjóðskáldsins kemur því upp í hugann.  

Sagan hefst á Kolgrímastöðum í Eyjafirði 1884. Hjónin á bænum, þau Valdimar Árnason og Guðrún Þorkelsdóttir eignuðust þá dótturina Jónínu Valdimarsdóttur Schiöth. Jónína dvaldi í foreldrahúsum fram á unglingsár. Þá réðist hún í vist að Hrafnagili hjá Jónasi Rafnar og síðar hjá Steingrími Matthíassyni yfirlækni á Akureyri. Síðar kynntist hún Karli Friðriki Schiöth kaupmanni á Akureyri. Jónína og Karl giftust árið 1914. Hjónin bjuggu á Akureyri á árunum 1914-1927 er þau fluttu til Hríseyjar.  

Árið 1918 fæddist þeim dóttirin Helga Guðrún og tveimur árum síðar kom Hinrik í heiminn. Hann lést af slysförum árið 1942. Helga dó árið 2012. Þá tóku þau og systurdóttur og nöfnu Jónínu í fóstur á þessum árum. Fyrir átti Karl þrjú börn af fyrra hjónabandi og því verkin ærin á stóru heimili. Um það leyti sem Karl dó árið 1928 tók Jónína að sér annað fósturbarn, Sigurð Jóhannsson sem síðar varð skipstjóri á Akureyri. Árið 1959 flutti Jónína með fjölskylduna í Kópavog. Frá 1965 til dánardags 1. desember 1985 bjó Jónína á Hrafnistu. Hún dó á 102. aldursári.  

Jónína var á sama aldri og Sigrún langamma Jónsdóttir sem bjó á bæ í grennd við Kolgrímastaði. Auk þess voru þær Rósa amma og Jónína tengdar ættarböndum. Því er ekki ósennilegt að samgangur hafi verið milli fjölskyldnanna tveggja meðan amma var að alast upp. Í það minnsta urðu amma og Jónína góðar vinkonur þrátt fyrir 20 ára aldursmun og hélst sá vinskapur svo lengi sem amma lifði. Eftir að amma Rósa hóf búskap kom Jónína reglulega í heimsókn til hennar á meðan hún bjó í Hrísey og dvaldi þá jafnvel yfir nótt.

Fyrir liggur að Jónína og Karl fengu ömmu til starfa á heimili sínu þegar hún var ung stúlka. Þau voru broddborgarar á Akureyri og viðbúið að þau hafi umgengist helstu persónur og leikendur í menningarlífi bæjarins og þannig mögulega amma einnig um tíma. Amma var feimin og þótti henni viðbrigðin mikil að fara úr rólegu sveitaumhverfinu í ys og þys þéttbýlisins. Þá kom leiðsögn Jónínu í góðar þarfir en hún reyndist ömmu afar vel á meðan á vistinni stóð. Hvenær amma bjó hjá Jónínu og Karli á árunum 1914-1927 og hversu lengi er hins vegar stóra spurningin.

Getur verið að amma Rósa hafi hitt Steingrím Matthíasson eða Halldóru Bjarnadóttur á meðan hún var í vist hjá Jónínu og Karli? Leit aldraður Matthías Jochumsson í kaffisopa og hripaði ljóðlínur í litlu ljóðabók ungu þjónustustúlkunnar? Kannski langsótt. Engu að síður skemmtileg tilgáta. Líklega verður að teljast sennilegt að Ó-l-a-f-u-r hafi skrifað ljóð Matthíasar og heilræðin til ömmu, hver svo sem þessi Ólafur var með bandstrikin milli bókstafanna.

Hugsanlega er tilgátan ekki eins langsótt og hún virðist við fyrstu sýn. Fyrir það fyrsta er alls ekki útilokað að leiðir þeirra ömmu og Matthíasar hafi legið saman vegna stöðunnar sem hún gegndi á heimili Jónínu og Karls. Þá eru óneitanlega líkindi með skrift þjóðskáldsins og þeirri sem stílabók ömmu Rósu geymir.

Amma Rósa lést í nóvember 1967. Hvort sem það var Matthías sem skrifaði í grænu stílabókina hennar eða Ólafur, skiptir ekki öllu máli. Mér þykir jafn vænt um bókina hvort heldur sem er. Fyrir mér er hún sem þúsund metsölubækur.

Akureyri, 18. nóvember 2020

Brynjar Karl Óttarsson

Heimild: Grenndargralið

Myndir og hliðarsögur í tengslum við frásögnina má finna á fésbókarsíðu Grenndargralsins.

Sambíó

UMMÆLI