Safnið – Fjölmiðlasamsteypa grunnskólanna

Safnið – Fjölmiðlasamsteypa grunnskólanna

Giljaskóla barst styrkur frá foreldrafélagi skólans í desember síðastliðnum svo fjárfesta mætti í tækjum og tólum fyrir hlaðvarpsþáttagerð í þágu nemenda og starfsfólks. Styrkurinn hefur nú þegar verið nýttur til að koma upp sérstöku hlaðvarpsherbergi í skólanum með tilheyrandi búnaði. Á heimasíðu Giljaskóla segir að „Bæði kennarar og nemendur hafa verið duglegir að nýta sér aðstöðuna til að taka upp hlaðvörp til að nýta í kennslu og til að skila verkefnum.“ Grenndargralinu er ekki kunnugt um hvernig málum er háttað í öðrum grunnskólum bæjarins en telja verður líklegt að aðstaða til upptöku og úrvinnslu á hljóðskrám og myndefni hafi batnað hin síðustu ár með bættri tækni og auknu aðgengi. Kannski er þetta upphafið að fjölmiðlasamsteypu grunnskólanna á Akureyri – hugmynd sem Grenndargralið deildi með lesendum sínum fyrir rétt tæpum sjö árum síðan. Þá má velta fyrir sér hvort hugmyndin eða einhverjir angar hennar eigi erindi inn í umræðu sem reglulega skýtur upp kollinum og er einmitt í brennidepli þessa dagana þ.e. um stöðu drengja í skólakerfinu. Grenndargralið rótar í safninu og glæðir gamla kreppuhugmynd lífi á Covid-tímum. 

Af hverju setjum við ekki á fót fjölmiðlasamsteypu sem borin verður uppi af duglegum og skapandi grunnskólanemum á Akureyri? Kennarar og aðrir sem starfa með börnum eru sífellt að leita leiða við að láta dvölina í skólanum endurspegla sem mest hið daglega líf utan veggja skólans. Raunveruleg og áhugaverð viðfangsefni eins og blaðaútgáfa, útvarpsrekstur, netmiðlar og sjónvarpsþáttagerð gætu skilað þeim árangri sem við erum að stefna að.

En er pláss á fjölmiðlamarkaðnum? Við vitum það ekki fyrr en við látum á það reyna. Ekki eru fordæmi fyrir uppátæki sem þessu á Íslandi og þótt víðar væri leitað og því erfitt að sjá samkeppni sem rök fyrir því að leggja ekki af stað. Er áhugi á því sem grunnskólanemendur hafa fram að færa? Með jafn stóru verkefni og hér um ræðir, með tilheyrandi metnaði og vinnuframlagi barnanna okkar, má alveg reikna með góðum undirtektum í heimabyggð. Hér yrði um ákveðna frumkvöðlastarfsemi að ræða af hálfu skólayfirvalda í bænum. Tækifæri þeirra til að glæða lífi í fögur orð á pappír. Tækifæri til að vera leiðandi í innleiðingu á nýjum og breyttum vinnubrögðum í skólunum og vera þannig í fararbroddi bæjarfélaga sem kenna sig við öflugt skólaþróunarstarf.

Hvað erum við að tala um? Hér er tvennt sem liggur til grundvallar. Annars vegar nám og kennsla, hins vegar skemmtun og afþreying. Eru þessir þættir ekki allir til staðar nú þegar í skólunum? Jú, svo sannarlega eru grunnskólarnir að vinna frábært starf hvern einasta dag. Fjölmargir starfsmenn skólanna reyna eftir bestu getu að stuðla að skapandi starfi og merkingarbæru námi. En betur má ef duga skal. Jafnvel fyrir hugmyndaríka, duglega og framkvæmdaglaða kennara er erfitt að berjast gegn kerfinu, rammanum, íhaldsseminni, peningaskortinum, þægindarammanum, launakjörunum og öllu hinu sem mögulega kemur í veg fyrir að framúrstefnulegar hugmyndir komist í framkvæmd. „Þetta er gömul og ný saga.“ „Þetta hefur alltaf verið svona.“ „Þetta er náttúrulögmál.“

Eigum við ekki bara að spara okkur ómakið, hætta þessari útópíuhugsun og halda okkur við bækurnar, 40 mínútna kennslustundirnar og töflukennslu? Eða eigum við að hætta að tala um skólabæinn Akureyri á tyllidögum og stuðla að raunverulega merkingarbæru námi? Láta verkin tala? Framkvæma? Þorum við að taka næsta skref sem við munum óhjákvæmilega þurfa að taka einhvern tímann á nýrri öld? Vissulega má færa rök fyrir því að núverandi skólaumhverfi mæti þessum þörfum að einhverju leyti. Sagan mun þó kveða upp sinn dóm hvað sem tautar og raular og hvort sem menn telja vel að verki staðið í dag eða ekki. Hvort komandi kynslóðir muni þá taka undir með þeim sem telja grunnskólana halda í við eðlilega þróun skal ósagt látið. En hvernig á fjölmiðlasamsteypa á vegum grunnskólanna að leysa vandann? Hún leysir auðvitað ekki vandann frekar en önnur einstök viðfangsefni. Hún getur þó hugsanlega lagt sitt lóð á vogarskálarnar.

Skoðum hugmyndina hráa og án allrar fitu og aukaefna. Skólayfirvöld á Akureyri útvega fjármagn til að hefja rekstur á fjölmiðlasamsteypu sem grunnskólarnir hafa veg og vanda að. Allir grunnskólar á Akureyri eiga aðild að rekstrinum og þannig dreifist vinnuframlagið. Margar hendur vinna létt verk! Skólayfirvöld leggja til húsnæði og tæki sem skólarnir nýta í sameiningu utan þess sem nemendur vinna hver í sínu lagi í sínum skóla með þeim búnaði og aðstöðu sem þar er fyrir. Nemendur hvers skóla vinna saman og með nemendum annarra skóla að vissum verkefnum og nýta þá reynslu og kunnáttu sem byggst hefur upp á síðustu árum með tölvuvæðingu skólanna.

Jæja, við skulum staldra aðeins við hér. Hver er svo ávinningurinn því ljóst er að tilkostnaðurinn er ærinn? Skoðum nokkur dæmi um lykilatriði í menntun á 21. öldinni: Lýðræði, mannréttindi, jafnrétti, sköpun, tjáningarfrelsi, upplýsingamiðlun, stafrænt læsi, miðlamennt og miðlalæsi. Áfram með upptalninguna: Sjálfstæð vinnubrögð, ritun, framsögn, ábyrgð, samskipti,vandvirkni og gagnrýnin hugsun. Allt eru þetta hlutir sem kennarar reyna daglega að kenna, kynna, segja frá og draga fram í fari nemenda með misjöfnum árangri. Heppileg leið fyrir kennara að innræta börnum öll þessi góðu gildi er í gegnum raunveruleg viðfangsefni sem hafa tilgang í þeirra augum – verkefni sem nemendur sjá hag sinn í að leysa af metnaði. Nemendur þurfa að sjá raunverulegan tilgang með því sem þeir eru látnir gera. Þannig læra þeir, þannig efla þeir með sér löngun til að taka framförum, þannig sjá þeir tilganginn í því sem þeir eru að gera. Þetta sést best í skólunum þá daga sem eitthvað stendur til og hefðbundið skólastarf er brotið upp. Allir vinna saman að sameiginlegu markmiði þar sem samkomulag ríkir um að gera hlutina eins vel og mögulegt er.

Fjölmiðlasamsteypa grunnskólanna á Akureyri mun ýta undir vönduð vinnubrögð hvort sem um er að ræða textagerð, framsögn eða meðferð heimilda. Hún mun vekja upp hugleiðingar um sjálfsögð mannréttindi svo sem tjáningarfrelsi og lýðræði. Hún mun stuðla að skapandi og sjálfstæðum vinnubrögðum auk þess sem hún mun auka ábyrgðarkennd og gagnrýna hugsun. Viðskipta og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?

Heimild: Grenndargralið

Mynd: Shutterstock

Sambíó

UMMÆLI