Salmonella hefur nú verið staðfest á bænum Kvíabóli í Þingeyjarsveit. Þessu er greint frá á vef MAST . Er þetta niðurstaða faraldsfræðilegrar rannsóknar í kjölfar þess að smit greindist í nautgripum á bænum Fellshlíð fyrr í mánuðinum. Sömu opinberu takmarkanir verið settar á báða bæina til að hefta frekari útbreiðslu smits.
Á sama tíma voru öll sýni sem tekin voru í síðustu viku í Fellshlíð, bæði úr hjörðinni og umhverfi hennar, neikvæð. Engin dýr á bænum sýna nú einkenni sjúkdómsins.
Þrátt fyrir þessar niðurstöður í Fellshlíð er of snemmt að aflétta takmörkunum. Þekkt er að útskiljun salmonellu í saur getur verið sveiflukennd og oft tengd streitu hjá dýrum. Til þess að hægt sé að lýsa bæina lausa við sjúkdóminn þarf að endurtaka sýnatökur með 30 daga millibili. Öll þau sýni þurfa að reynast neikvæð áður en takmarkanir verða felldar úr gildi.
Unnið er áfram að rannsókn málsins til að tryggja að smitið breiðist ekki frekar út.
UMMÆLI