Sandra María: „Frábært að finna hversu mikill áhugi var meðal þjóðarinnar“

Sandra María: „Frábært að finna hversu mikill áhugi var meðal þjóðarinnar“

Evrópumót landsliða í knattspyrnu er í fullum gangi í Hollandi þessa dagana en íslenska landsliðið hefur lokið keppni eftir að hafa farið stigalausar í gegnum riðilinn. Uppskera mótsins þónokkur vonbrigði fyrir íslenska liðið sem hafði sett sér háleit markmið fyrir mót. Þrátt fyrir svekkjandi árangur var umgjörðin í kringum íslenska liðið glæsilegri en nokkru sinni fyrr og stelpurnar fengu mikla fjölmiðlaumfjöllun, bæði í aðdraganda mótsins og meðan á því stóð.

Sandra María Jessen var eini fulltrúi Þórs/KA á EM í Hollandi en hún er komin heim til Íslands eftir að hennar sögn; lærdómsríkar vikur í Hollandi.

„Ævintýrið í Hollandi var virkilega skemmtilegt og lærdómsríkt. Við fórum inn í mótið fullar sjálfstrausts og reiðubúnar að gefa allt í leikina til að ná árangri. Umgjörðin í kringum mótið var til fyrirmyndar og öll þjóðin stóð við bakið á okkur. Þessi tími með landsliðinu er eitthvað sem ég mun seint gleyma, enda skapaðist ólýsanlega góð stemning í kringum mótið.“

Sandra María ásamt liðsfélögum sínum úr Þór/KA

„Það er erfitt að nefna eitthvað eitt eða tvennt sem klikkaði hjá okkur þar sem þetta var samspil ýmissa þátta. Tölfræðin úr leikjunum sýndi þó að við vorum ekki að ná mörgum sendingum innan liðs og út frá því má segja að við hefðum þurft að halda betur í boltann. Með einföldu spili hefðum við þvingað andstæðingana í meiri hlaup varnarlega og þá samtímis hefðum við mögulega náð að spila okkur meira í gegnum vörn andstæðinganna.“

Sandra segist hafa lært margt á mótinu innan sem utan vallar. Ég lærði margt á þessu móti, bæði hluti sem við kemur landsliðinu og hvernig við spilum okkar leik, en ekki síður hvernig það er að umgangast stórmót. Ég hef aldrei verið í kringum jafn mikið af áreiti frá fjölmiðlum og í Hollandi, enda frábært að finna hversu mikill áhugi var meðal þjóðarinnar. Síðast en ekki síst náði ég að bæta minn leik og vinna áfram með leikkerfið 3-4-3 á annan hátt en ég er vön með Þór/KA.“

Mynd: fotbolti.net

Þór/KA sitja með 6 stiga forskot á toppi Pepsi deildarinnar, taplausar eftir 11 leiki. Næsti leikur liðsins er 10. ágúst gegn Fylki á Þórsvelli.

„Eftir lærdómsríkt EM er ekkert sem mig hlakkar meira til en að spila aftur í deildinni. Ég held því að það verði lítið mál að færa einbeitinguna yfir á deildina, enda skemmtilegt verkefni framundan. Nú tek ég nokkra daga í frí til að ná mér andlega og líkamlega eftir EM en síðan fer öll mín orka í að undirbúa mig og okkur í Þór/KA fyrir baráttuna í deildinni.“

„Markmiðið mitt sem og okkar allra í Þór/KA er að klára tímabilið með titilinn í höndunum. Við erum á góðum stað í deildinni með 6 stiga forskot en eigum krefjandi leiki eftir og höfum því verk að vinna. Auk þess er mitt persónulega markmið að spila vel og bæta minn leik til að halda mér í landsliðshópnum þar sem undankeppni HM hefst í Október með heimaleik gegn Færeyjum.“

Sambíó

UMMÆLI