Segir eftirlit með öryggismálum í íþróttahúsum að engu leyti ábótavant

Vegna óhapps sem varð í íþróttahúsi Glerárskóla á fimmtudag, vill íþróttafulltrúi Akureyrarbæjar, Ellert Örn Erlingsson, að skýrt komi fram að eftirliti með öryggismálum í íþróttahúsum bæjarins er að engu leyti ábótavant. Verið var að hífa upp körfu eftir körfuboltaæfingu þegar togvír slitnaði og festing á öryggiskeðju gaf sig. Önnur öryggiskeðja hélt þó og karfan stöðvaðist því í þeirri hæð sem hún er venjulega höfð í þegar hún er í notkun.

Ungmennaráð körfuknattleiksdeildar Þórs æavað að fresta æfingum um óákveðinn tíma í kjölfar málsins og í yfirlýsingu frá ráðinu segir að ekki sé hægt að tryggja öryggi iðkenda. Æfingar hafa nú verið færðar í Íþróttahöllina og í íþróttahús Naustaskóla á meðan málið verður skoðað. Ákveðið hefur verið að fara í endurbætur á húsinu á næsta ári en Ellert segir að öryggi barna sé alltaf númer eitt.

„Hér er um grafalvarlegt óhapp að ræða og í raun furðulegt að vírinn, sem er aðeins um árs gamall, skyldi slitna. Öllum körfuboltaæfingum í Glerárskóla hefur nú verið hætt um óákveðinn tíma á meðan farið verður betur í saumana á því sem gerðist og flytjast æfingar þar með í Íþróttahöllina og íþróttahús Naustaskóla. Að sjálfsögðu harma ég þetta óhapp og það er og hefur verið algjört forgangsatriði hjá okkur að tryggja öryggi þeirra barna sem iðka íþróttir í bænum. Við höfum átt í mjög góðu samstarfi við ÍBA og íþróttahreyfinguna á Akureyri um uppbyggingu og viðhald mannvirkja. Starfsmenn bæjarins brugðust strax við þegar vírinn slitnaði og það verða engar körfuboltaæfingar þarna fyrst um sinn a.m.k. Öryggið þarf að vera algjörlega tryggt og allt til þess gert að koma í veg fyrir að svona nokkuð geti átt sér stað. Það skiptir öllu máli að ekki urðu slys á fólki. Öryggi barnanna okkar er auðvitað alltaf númer eitt,“ segir Ellert Örn.

Sjá einnig:

Endurbætur á Íþróttahúsinu við Glerárskóla hefjast á næsta ári

Telja að ekki sé hægt að tryggja öryggi iðkenda í Íþróttahúsinu við Glerárskóla

Sambíó

UMMÆLI