Segir yfirlýsingu Samherja einhverskonar misskilning

Segir yfirlýsingu Samherja einhverskonar misskilning

Eyðun Mørkøre, skattstjóri í Færeyjum, segir að hann hafi ekki tilkynnt Samherja það að fyrirtækið væri ekki til rannsóknar í Færeyjum. Samherji gaf út yfirlýsingu þess efnis á heimasíðu sinni í gær.

Í yfirlýsingunni sem birtist á Samherji.is í gær segir að fyrirtækið hafi fengið staðfest frá Mørkøre að engin skattrannsókn sé hafin á hendur Samherja í Færeyjum. Hann hafi einnig staðfest að RÚV hafi haft rangt eftir honum.

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins á föstudag kom fram að rannsókn á mögulegum skattalagabrotum Samherja væri hafin í Færeyjum. Í frétt RÚV er vísað í ummæli Eyðuns Mørkøre sem hann lét falla fréttaþætti færeyska sjónvarpsins á fimmtudagskvöld.

Mørkøre tjáði sig um fyllyrðingar Samherja á Facebook síðu sinni í gær.

„Að sjálfsögðu verður „málið“ sem var talað um í þættinum „Tey ómettuligu“ kannað af skattinum, eins og ég sagði í Degi og viku þann 11. Mars,“ skrifar Mørkøre á Facebook, þar sem hann deilir frétt KVF um yfirlýsingu Samherja.

„Ég hef ekki á nokkurn hátt vottað fyrir Samherja á Íslandi að eitthvað væri öðruvísi en það sem ég sagði í Degi og viku. Það mun vera einhver misskilningur,“ skrifar Mørkøre.

UMMÆLI

Sambíó