Sigrún Stefánsdóttir hissa á fréttaflutningi af umsóknartölum háskólanna: „Þrjátíu prósenta aukning er meiri frétt en tíu prósenta aukning”

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir furðar sig á fréttaflutningi stærstu fjölmiðla á Íslandi af umsóknartölum í háskólanna í landinu í grein sem birtist á Vísi.is í morgun.

Líkt og við greindum frá hér á Kaffinu eru um 30% fleiri umsóknir í Háskólann á Akureyri fyrir næsta skólaár en á síðasta ári. Alls sóttu 2.160 manns um skólavist við Háskólann á Akureyri fyrir næsta skólaár, 2018-2019.

Sigrún segir að gamla orðtækið „detta mér allar dauðar lýs úr höfði“ hefði komið upp í huga hennar þegar hún las fréttaflutning Fréttablaðsins og Morgunblaðsins í vikunni um gríðarlega aukningu í umsóknum um nám í háskólum landsins.

„Ég hef unnið um árabil sem fréttamaður og enn lengur sem kennari í fjölmiðlafræði á háskólastigi, bæði við Háskóla Íslands og nú síðast við Háskólann á Akureyri. Í þessum fræðum er lögð áhersla á jafnvægi í fréttaflutningi og nemendur læra snemma að sýnileiki í fjölmiðlum er mikilvægur, bæði þegar vel gengur og eins þegar á móti blæs. Háskólinn á Akureyri hefur ekki farið varhluta af sýnileika þegar á móti hefur blásið, en eitthvað virðist þrengra um pláss á síðum blaðanna þegar vel gengur. Rýr umfjöllun um sívaxandi vinsældir skólans staðfestir þetta enn einu sinni,” skrifar Sigrún.

Hún bendir á að í frétt Fréttablaðsins þann 8. júní hafi háskólanám HÍ fengið ítarlega umfjöllun um 12 prósenta aukningu í umsóknum í skólann og að það sama hafi gilt um Háskólann í Reykjavík vegna 11 prósenta aukningar. Hinsvegar hafi Háskólinn á Akureyri einungist fengið fjórar línur vegna 30 prósentu aukningarinnar sem var þar í umsóknum á milli ára.

Í Morgunblaðinu daginn eftir hafi fréttaflutningurinn verið í svipuðum dúr. Þar hafi verið rætt við rektora HÍ, HR og Bifröst um flottan árangur í aðsókn en aðsóknartölur í HA hafi ekki einu sinni verið nefndar og ekki rætt við rektor skólans.

„Þrjátíu prósenta aukning er meiri frétt en 10 prósenta aukning. Ég hefði sagt nemendum mínum að byrja fréttina á því sem er stærst eða mest, þ.e.a.s byrja fréttina á aukningunni fyrir norðan.”

Sem betur fer virðist unga fólkið í landinu betur upplýst en fjölmiðlafólk höfuðborgarsvæðisins og sækir í hulduskólann fyrir norðan, þrátt fyrir línurnar fjórar og fjarveru rektors HA í jákvæðu fréttunum um aukna sókn í háskólanám hér á landi.”

Smelltu hér til þess að lesa grein Sigrúnar.

Sjá einnig:

30% fleiri umsóknir við HA en árið áður

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó