Silja Rún ráðin forvarnarfulltrúi hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra

Silja Rún ráðin forvarnarfulltrúi hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra

Lögreglukonan Silja Rún Reynisdóttir hefur verið ráðin forvarnarfulltrúi hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Forvarnarfulltrúi hefur ekki verið starfandi hjá lögreglunni síðustu ár.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að þörfin fyrir slíkum starfsmanni sé töluverð og að undanfarið hafi lögreglan fengið ákall frá samfélaginu um að endurvekja þessa starfsemi.

Silja Rún hefur starfað sem lögreglukona hjá embættinu síðan árið 2016. Hún lauk diplómagráðu í lögreglufræðum frá Háskólanum á Akureyri árið 2018, ásamt því að hafa lokið B.A gráðu í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands.

„Forvarnarstarfið er á byrjunarreit, þótt lögreglan reyni auðvitað að sinna ýmsum forvörnum meðfram öðrum störfum. Markmiðið nú er að auka fræðslu og forvarnarstarf þar sem þörf er á. Verkefnin eru reyndar óþrjótandi og því áríðandi að velja vel þau verkefni sem fá mesta áherslu. Þar erum við nú að horfa m.a. á ýmsa misnotkun samfélagsmiðla og kynferðisbrot,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

„Erfitt getur verið að meta árangur af forvarnarstarfi en við erum þess fullviss að gildi svona vinnu sé mikið fyrir samfélagið. Með góðu forvarnarstarfi verður lögreglan sýnilegri í samfélaginu og tengsl við íbúa aukast. Lögreglan telur mikilvægt að eiga í góðum samskiptum við íbúa og félagasamtök á svæðinu. Við bindum því miklar vonir við þessa vinnu.“

Hægt er að hafa samband við Silju með því að senda tölvupóst á srr01@logreglan.is eða hringja í síma 444-2850.

UMMÆLI