Prenthaus

Sjáðu þessar hendur!

Inga Dagný Eydal skrifar:

Góður vinur minn ólst upp í litlu sjávarplássi og þegar hann fór að vinna á hefðbundnum karlavinnustöðum heimabæjarins í skólafríunum,  voru þar fyrir karlar sem ekki kölluðu allt ömmu sína og höfðu ekki mikla trú á renglulegum unglingsstrákum með mjúkar hendur. Þeir sýndu þá gjarna sínar vinnulúnu og siggrónu hendur og sögðu; „Sjáðu þessar hendur! Þær eru svona farnar af alvöru vinnu!” Þannig var gefið í skyn að alvöru vinna væri ekki fólgin í bóklestri og dútli heldur í líkamlegri vinnu. Og menn sem voru á einhvern hátt veikir fyrir, þurftu jafnvel að hlífa sér líkamlega svo ekki sé nú minnst á andleg veikindi, -þeir áttu ekki upp á pallborðið. Þeir voru minni menn! Heimurinn var harður og ekki pláss fyrir slíka meðal „alvöru” karlmanna.

Þetta situr í mínum góða vini sem var fremur viðkvæmur unglingur og víst er það að margir mínir jafnaldrar komu brotnir undan kröfum þessara ára. Tímarnir hafa breyst og karlarnir hættir að grobba sig af vinnulúnum höndum enda langt síðan þetta var var. Allar aðstæður til vinnu hafa breyst og kröfur um líkamlegt atgerfi snúast meira um lyftingar í líkamsræktarsölum en „alvöru” hendur. Tæknin hefur tekið af okkur margt ómakið og þeim fækkar sem slíta sér út í líkamlegri vinnu.

Neikvæð áhrif linnulausrar streitu hafa hinsvegar tekið hinn nýja sess sem ógn hins vinnandi manns og í raun samfélagsins alls. Nú er ekki keppt í því hver getur lyft þyngstu sekkjunum eða saltað hraðast ofan í tunnur heldur í því hver getur tekið mestu áhættuna með heilsu sína og líf í því að framleiða mest af óþörfum streituhormónum. Ég segi óþörfum því að streituhormón eru jú leið líkamans til að bregðast líkamlega við hættuástandi en streituhormón sem verða til við sífellt álag og áreiti af andlegum toga spillir heilsu okkar og það bæði hratt og vel. Í samfélagi sem metur peninga ofar öðru og hampar samkeppni og árangri sem hinu æðsta takmarki, þar grassera líka sjúkdómar sem tengjast lífsstíl og álagi. Þar erum við íslendingar að verða býsna framarlega í flokki. Kulnun eða sjúkleg streita er mikið til umræðu núna og virðist vera að færast mikið í vöxt að fólk veikist af ofurálagi og streitu þannig að það fellur jafnvel af vinnumarkaði til frambúðar.

Þetta er ekki hvað síst algengt í velferðar, heilbrigðis og menntakerfi hins opinbera enda álagið sífellt meira á þá sem þar starfa. Góðærið nær ekki þangað og þeir sem standa vaktina vinna við að hjálpa öðru fólki,- oftast við lítinn orðstí og fyrir lág laun.

Ég hef á tilfinningunni að sá sé etv.„heppinn” sem keyrir á vegg og neyðist til að hætta að misbjóða sjálfum sér á þennan hátt en situr eftir með „bara” kulnunareinkenni, jafnvel á örorkubótum. Heppinn,  vegna þess að það er líka mín tilfinning að fyrir hvern einn sem veikist af kulnun séu þó nokkrir sem veikjast af völdum streitu á annan hátt, fá krabbamein, hjarta og æðasjúkdóma og ýmsa aðra alvarlega sjúkdóma sem tengjast neikvæðum áhrifum streitu og álags.

Og í stað þess að fyllast einhverskonar lotningu fyrir þeim einstaklingum sem fórna heilsu sinni og tilveru af völdum streitu í vinnu þá hljótum við að verða að fara að tileinka okkur nýjan hugsunarhátt. Hugsunarhátt sem ekki dáist að því að vinna sem lengstan vinnudag, -sem ekki býður upp á vinnu „eftir vinnutíma”, -sem ekki metur það meira að sýsla með peninga en að annast um annað fólk og sem skapar fólki mannsæmandi laun fyrir hæfilegt vinnuálag. . Það er hugsunarháttur sem snýr að alvöru forvörnum og því að útrýma gömlum draugum heillar þjóðar.

Sjúkdómar af völdum streitu eru ógn gott fólk, ógn sem þarf að horfast í augu við og takast á við. Það var kannski manndómsmerki að hafa vinnulúnar hendur en það er ekki manndómsmerki að vinna sig í hel.

Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.

UMMÆLI