Skilaboð frá skáldi finnast á viðarplötu í Hamarstíg eftir 75 ár

Skilaboð frá skáldi finnast á viðarplötu í Hamarstíg eftir 75 ár

Á árunum 1931-32 byggðu Jóhann Frímann (1906-1990) og Kristinn Þorsteinsson (1904-1987) parhús við Hamarstíg á Akureyri ásamt eiginkonum sínum, systrunum Sigurjónu (1909-1981) og Lovísu (1907-2002) Pálsdætrum. Húsið var reisulegt og af stærri gerðinni enda gert ráð fyrir tveimur fjölskyldum undir sama þaki. Fjölskyldur þeirra Jóhanns og Kristins bjuggu í húsinu á umbrotatímum í sögu þjóðarinnar, allt þar til Jóhann og Sigurjóna byggðu sér hús við Ásveg árið 1957. Rétt eins og önnur hús sem komin eru á virðulegan aldur, geymir húsið við Hamarstíg sögur og minningar fólksins sem í því bjó – sögur sem hverfa inn í eilífðina þegar sögupersónurnar hverfa á vit forfeðra sinna. Einstöku sinnum rata þó örsögur sögupersónanna til okkar sem eftir lifum fyrir einskæra tilviljun. Ritaðar heimildir koma fram í dagsljósið og færa okkur ný sannindi um veröld sem var eða gamlir munir sem koma í leitirnar og varpa ljósi á löngu liðna atburði. Einn slíkur fundur átti sér stað í Hamarstíg 6 ekki alls fyrir löngu.

Hverfum rétt sem snöggvast aftur til kreppuáranna. Árið 1929, um það bil tveimur árum áður en byggingaframkvæmdir hófust í Hamarstíg, var matvörudeild KEA stofnuð. Kristinn var ráðinn deildarstjóri svo þau hjónin fluttu frá Ólafsfirði þar sem þau höfðu búið. Gegndi Kristinn stöðunni til ársins 1978 þegar hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Kristinn og Lovísa eignuðust þrjú börn. Um það leyti sem þau hugðu á vistaskipti, haustið 1928, var Jóhann ráðinn skólastjóri Iðnskólans. Ári síðar, sumarið 1929 gengu Jóhann og Sigurjóna í hjónaband. Þegar Jóhann festi ráð sitt var hann orðinn lífsreyndari en margur jafnaldri hans þrátt fyrir ungan aldur; nám við lýðháskóla í Danmörku, ferðalag um Evrópu og dvöl í klausturskóla í Luxemborg segir allt sem segja þarf. Þá ferðaðist hann um Sovétríkin árið 1933. Jóhann gegndi stöðu skólastjóra Iðnskólans til ársins 1955 þegar hann tók við stöðu skólastjóra Gagnfræðaskóla Akureyrar þar sem hann starfaði til ársins 1963. Jóhanni og Sigurjónu varð þriggja barna auðið.

Menning og listir hafa líklega einkennt fjölskyldulífið í Hamarstíg um miðja 20. öldina. Kristinn var annálaður söngmaður og söng gjarnan með öðrum kunnum söngmanni, Jóhanni Konráðssyni. Þá spilaði Kristinn einnig á píanó. Jóhann var skáld og rithöfundur. Hann sendi frá sér ljóðabækur, samdi texta við kórlög og skrifaði leikrit sem sýnt var bæði hjá Leikfélagi Akureyrar og Reykjavíkur og flutt í útvarpi. Menning og listir svífa enn yfir vötnum í Hamarstíg 6. Stundum finnst manni sem tíminn standi í stað. Ætli rithöfundinum sem býr í húsi þeirra félaga í dag hafi ekki liðið svo eitt augnablik þegar hún fann skilaboð nú á dögunum – rituð af Jóhanni Frímann á gamla viðarplötu – skilaboð sem legið hafa í leyni í 75 ár? Brynhildur Þórarinsdóttir sagði frá fundinum á fésbókarsíðu sinni. Með leyfi Brynhildar birtir Grenndargralið færsluna þar sem hún lýsir samtali skáldanna, svona nokkurs konar skáldatali, háð stað en ekki stund.

„margt áhugavert rekst maður á í framkvæmdabrasi. Þessi ljóðrænu hughrif komu í ljós aftan á stigaþrepi þegar gömul plata var rifin af. „Hugfanginn þann 1. apríl 1945 af lagi sem Kr. Þ. er að leika á slaghörpu kl. 10.30 e.h.“ Í húsinu bjuggu þá upphaflegir eigendur, Jóhann Frímann, skólastjóri Iðnskóla Akureyrar, sem þetta ritar, og píanóleikarinn Kristinn S. Þorsteinsson, útibússtjóri hjá KEA, ásamt konum sínum, systrunum Sigurjónu og Lovísu. Stiginn skiptir húsinu í tvennt og bjuggu fjölskyldurnar austan og vestan megin. Áletrunin er í kjallarastiganum svo þar hefur skólastjórinn staðið andaktugur og hlustað á svila sinn. Ef til vill lagði hann leið sína sérstaklega niður til að hlusta því gólfin voru einangruð með sagi og tímaritum(!) svo ómarnir úr píanóstofunni hafa borist vel niður en síður milli helminga. Við verðum bara að ímynda okkur hvaða tónverk Kristinn var að leika að kvöldi páskadags fyrir 75 árum. Ætli það hafi endurspeglað innra eða ytra líf? Bjartsýni eða trega? Það er 1. apríl 1945: Fréttir herma að Bandamenn séu að ná undirtökunum í stríðinu mikla, Bandaríkjamenn hafa ráðist á Okinawa. Engum er þó enn ljóst að síðasti mánuður Hitlers er runninn upp. Hörmungar stríðsins hafa skekið Íslendinga; nýafstaðin er minningarathöfn um þau sem fórust þegar Dettifossi var sökkt. Reynum að heyra fyrir okkur hvað Kristinn lék. Það er páskadagskvöld, upprisuhátíð, tími vonar. Ber tónlistin þess merki eða er treginn alsráðandi?“

Fleiri myndir með umfjölluninni má finna á www.grenndargral.is.

Heimild: Grenndargralið.

UMMÆLI