Skoðaði jákvæðar og neikvæðar hliðar samfélagsmiðla

Skoðaði jákvæðar og neikvæðar hliðar samfélagsmiðla

Þriðjudaginn 3. nóvember varði Sveinbjörg Smáradóttir MA verkefni sitt í félagsvísindum við Hug- og félagsvísindasvið. Vörnin á verkefninu, Áhrif samfélagsmiðla á lífsgæði ungs fólks á Norðurlandi (e. Social Media and Quality of Live among Young Adults in Northen Iceland), fór fram á Zoom vegna aðstæðna í samfélaginu.

Í þróunarskýrslu Norðurslóða (Arctic Human Development Report) frá árinu 2014 kom fram að gloppur eru í þekkingu um viðhorf, þarfir, markmið og metnað ungs fólks á svæðinu. Til að mæta þessum áskorunum var sett af stað rannsókn sem nú stendur yfir um ungt fólk og sjálfbæra framtíð á norðurslóðum, Arctic Youth and Sustainable Futures. Þar var meðal annars rætt við ungmenni á aldrinum 18 til 30 ára í 35 rýnihópum um lífsgæði eins og þau eru skilgreind í Þróunarvísum Norðurslóða (Arctic Social Indicators, ASI). Þeir eru efnahagsleg velferð, menntun, heilsa, menningarleg velferð, tengsl við náttúru og stjórn á eigin örlögum. Sveinbjörg tekur þátt í því verkefni og þótti vert að grafa dýpra í áhrif samfélagsmiðla á lífsgæði ungs fólks í MA rannsókn sinni. 

„Í viðtölunum sá ég áhugaverða hluti varðandi samfélagsmiðlana og langaði að máta þá við þessa flokka og undirflokka í Þróunarvísum Norðurslóða. Þar sem að samfélagsmiðlar eru orðnir svo gríðarlega stór þáttur í daglegu lífi hjá flestu ungu fólki, þá fannst mér við hæfi að skoða áhrif þeirra á lífsgæði í breiðu samhengi,“ segir Sveinbjörg.

Í MA verkefni Sveinbjargar tóku 25 einstaklingar á Norðurlandi á aldrinum 20-30 ára þátt í rýnihópum sem fóru fram á Facebook eða svöruðu rafrænt opnum spurningalistum um hvaða áhrif samfélagsmiðlar hefðu á lífsgæði þeirra. Niðurstöðurnar leiddu í ljós tvíbentar og mótsagnakenndar tilfinningar gagnvart samfélagsmiðlum. Miðlarnir, sérstaklega Facebook og Instagram, gátu haft jákvæð áhrif á allar hliðar lífsgæða þeirra. Hins vegar gátu hin jákvæðu áhrif snúist í andhverfu sína með óhóflegri notkun. Tvö þemu voru gegnumgangandi í niðurstöðunum. Hið fyrra er aðgengi, sem notendur hafa að öllu mögulegu gegnum samfélagsmiðlana svo sem fólki, vörum, þjónustu, viðskiptavinum, nytjamörkuðum, afþreyingu, upplýsingum, þekkingu, ráðleggingum, hvatningu og innblæstri. Hitt þverlæga þemað var mikilvægi þess að vera meðvitaður og hafa stjórn, bæði á notkun sinni og tíma, svo og á mögulegum neikvæðum áhrifum samfélagsmiðla á lífsgæði þeirra. Neikvæðu áhrifin fólu í sér hættu á lakari gæðum mannlegra samskipta, að falla fyrir freistingum og kaupa mikinn óþarfa og einnig að eyða of miklum tíma og orku í samfélagsmiðla. Önnur neikvæð áhrif voru „glansmyndir“ og óraunhæfur samanburður við aðra; truflun á tengslum við náttúruna og sífelldir tískustraumar sem léti fólk frekar missa sjónar á íslenskum hefðum og siðum. Að lokum þótti þátttakendum miður sú hlutlægni, ónákvæmni og óáreiðanleiki efnis á samfélagsmiðlum sem og erfiðar, ósanngjarnar, umræður um samfélag og pólitísk málefni. 

„Það sem mér þótti áhugaverðast og kom mér í raun á óvart voru hin tvíbentu áhrif. Það er að segja, hversu gagnlegir samfélagsmiðlarnir Facebook og Instagram geta verið á öllum sviðum lífsgæða eins og þau eru skilgreind í ASI, en að sama skapi hvernig gagnsemin snýst auðveldlega upp í hið andstæða ef fólk eyðir miklum tíma, orku og athygli í miðlana. Margir töluðu um mikilvægi þess að reyna að hafa betri stjórn á notkun sinni til að draga úr neikvæðu áhrifunum,“ segir Sveinbjörg. 

Varðandi niðurstöðurnar og frekari rannsóknir segir Sveinbjörg að áhugavert væri að rannsaka frekar hvernig hægt sé að hámarka jákvæð áhrif samfélagsmiðla og lágmarka hin neikvæðu áhrif. Sem og að kanna hvað notendum finnst þurfa að breytast við umhverfi samfélagsmiðlanna svo að það megi gerast.

„Lærdómurinn af þessu er í raun sá að samfélagsmiðlar eru hvorki alsæmir né algóðir. En það þarf eitthvað að breytast, hvort sem það er hvernig kerfin eru uppbyggð, hvernig við notum þau, eða sitt lítið af hvoru – svo við getum notið kostanna án þess að líða of mikið fyrir gallana,“ segir Sveinbjörg að lokum

UMMÆLI