Sköpun bernskunnar í Listasafninu

Sköpun bernskunnar í Listasafninu

Laugardaginn 23. febrúar kl. 15 verður samsýningin Sköpun bernskunnar 2019 opnuð í Listasafninu á Akureyri. Þetta er sjötta sýningin undir heitinu Sköpun bernskunnar. Hún er sett upp til þess að örva skapandi starf og hugsun skólabarna á aldrinum fimm til sextán ára.

Þátttakendur hverju sinni eru börn og starfandi listamenn sem gera verk sem fellur að þema sýningarinnar, sem að þessu sinni er heimurinn og geimurinn í víðum skilningi. Sú nýbreytni var tekin upp í ár að leikskólabörnin koma í safnið og vinna verkið þar, undir leiðsögn sýningarstjórans.

Þátttakendur: Kristinn E. Hrafnsson, Rósa Kristín Júlíusdóttir, Hlíðarskóli og 25 fimm ára börn frá Leikskólanum Kiðagili.

Kristinn E. Hrafnsson stundaði nám í Myndlistaskólanum á Akureyri og Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk framhaldsnámi í Akademie der Bildenden Künste í München í Þýskalandi árið 1990.

Í verkum Kristins má greina heimspekilegan þráð og vangaveltur um rúm og tíma, hreyfingu, afstæði og tungumál. List hans fjallar um manninn og skilning hans á umhverfi sínu og hvernig náttúran mótar sýn hans og samskipti. Verk Kristins hafa verið sýnd á Íslandi og víða um Evrópu og eru verk hans að finna í öllum helstu listasöfnum á Íslandi sem og í opinberum söfnum og einkasöfnum.

Að loknu myndlistarnámi á Ítalíu undir lok sjöunda áratugarins hefur Rósa Júlíusdóttir unnið að myndlist og kennslu. Hún starfaði í 22 ár við kennaradeild Háskólans á Akureyri og rannsakaði þar m.a. myndlistarnám barna og ungmenna. Hún hefur skrifað fjölda greina sem birst hafa í íslenskum og erlendum bókum og tímaritum.

Rósa var einn af stofnendum Rauða hússins og Gilfélagsins auk þess sem hún rak listhúsið Samlagið ásamt fleiri listamönnum í nokkur ár.

Sýningarstjóri Sköpun bernskunnar 2019 er Guðrún Pálína Guðmundsdóttir.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó