Skorað á bæjaryfirvöld að endurskoða ákvörðun sína

Skorað á bæjaryfirvöld að endurskoða ákvörðun sína

Þrenn landssamtök hafa lýst yfir alvarlegum áhyggjum og andstöðu við ákvörðun bæjaryfirvalda á Akureyri um að leggja niður sjálfstæða starfsemi félagsmiðstöðva og færa hana undir stjórn grunnskóla. Samtökin sem um er að ræða eru Samfés, Félag fagfólks í frístundaþjónustu (FFF) og Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa (FÍÆT). Mbl.is greindi frá.

Í sameiginlegri yfirlýsingu er ákvörðunin harðlega gagnrýnd og sögð hafa verið tekin án samráðs við fagfólk í frístundastarfi, börn eða ungmenni. Hún er sögð ganga gegn viðurkenndum faglegum viðmiðum, farsældarlögum og meginreglum barnvæns sveitarfélags, þar sem ekkert samráð var haft við Ungmennaráð Akureyrar. Öllu starfsfólki félagsmiðstöðvanna hefur verið sagt upp störfum í kjölfar breytinganna.

Samtökin benda á að ákvörðunin veiki forvarnastarf og mikilvægi óformlegs náms, sem er grundvöllur í félagslegum þroska ungs fólks. Þau vara við hagsmunaárekstrum og skerðingu á gæðum frístundastarfs ef skólastjórnendur fá yfirráð yfir félagsmiðstöðvum.

Þrátt fyrir að Akureyrarbær hafi um árabil verið leiðandi í æskulýðsmálum er því haldið fram að þessi ákvörðun dragi úr fjölbreytileika og aðgengi að sjálfstæðu og valdeflandi starfi fyrir ungt fólk.

Skorað er á bæjaryfirvöld á Akureyri að endurskoða ákvörðun sína og hefja opið samtal við alla hagsmunaaðila til að tryggja áframhaldandi öflugt og faglegt æskulýðsstarf í bænum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó