Gæludýr.is

Snýr heim og tekur við rekstri Hríseyjarbúðarinnar

Snýr heim og tekur við rekstri Hríseyjarbúðarinnar

Gabríel Ingimarsson hefur tekið við stöðu rekstrarstjóra Hríseyjarbúðarinnar og snýr aftur í heimabyggð eftir nokkurra ára fjarveru með viðkomu í Reykjavík, Laugum í Reykjadal og Brussel.

Gabríel Ingimarsson kemur til Hríseyjarbúðarinnar frá Össuri þar sem hann starfaði sem sérfræðingur í fjármáladeild í þrjú ár. Hann er með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á fjármál. Sem rekstrarstjóri mun Gabríel leggja áherslu á að bæta rekstrargrundvöll verslunarinnar með auknum viðskiptum við eyjaskeggja og með breiðara vöruúrvali svo verslunin geti sinnt öllum helstu nauðsynjakaupum Hríseyinga. Sér hann fram á skemmtileg tækifæri í að að víkka út hlutverk búðarinnar í samfélaginu þannig hún sinni stærra samfélagslegu hlutverki á veturna.

Gabríel segist vera þakklátur þeim móttökum sem hann hefur fengið á þeim stutta tíma síðan hann hóf störf og hlakkar til að vinna með og í þágu íbúa Hríseyjar á komandi tímum.

„Það er gríðarlega verðmætt að fá tækifæri að snúa aftur í Hrísey og taka við rekstri verslunarinnar. Það hefur verið mikill uppgangur í Hrísey og ég er ánægður að geta tekið þátt í og stuðlað að því, í litlu samfélagi munar um allt og ég er spenntur að leggja mitt lóð á vogarskálarnar,“ segir Gabríel nýr rekstrarstjóri Hríseyjarbúðarinnar.

Vill styrkja verslun í Hrísey

Hríseyjarbúðin var stofnuð árið 2015 af fólki í eyjunni og hugsuð sem samfélagslegt verkefni. Í dag eru hluthafar í búðinni 79 talsins. Verslunin er opin allt árið og er þar einnig rekin afgreiðsla fyrir Póstinn, mannlegur hraðbanki, afhendingarstöð fyrir Vínbúðina og sjálfsafgreiðsluverslun utan opnunartíma.

„Það eru mörg spennandi tækifæri í rekstri Hríseyjarbúðarinnar til að bæta þjónustu við íbúa jafnt sem sumarhúsaeigendur og ferðamenn. Rekstri sjálfstæðra verslana á landsbyggðum Íslands fylgja einstakar áskoranir en tækifærin eru alveg jafn einstök og huga þarf sérstaklega að því að auka og tryggja rekstrarstoðir Hríseyjarbúðarinnar til lengri tíma,“ bætir Gabríel við.

UMMÆLI

Sambíó