Söguminjar frá 1809 í Naustahverfi

Kort þeirra Frisak og Scheel af Akureyri frá árinu 1809. Rauði hringurinn sýnir mælipunktinn sem enn má sjá ummerki um.

Ein dýrmætasta heimild sem til er um Akureyrarkaupstað er kort frá árinu 1809. Þar er landslagið dregið upp með afar nákvæmum hætti og gerð grein fyrir mannvirkjum af öllu mögulegu tagi. Á kortinu má m.a. sjá hús, girðingar, torfgarða, götuslóðir, vörður, örnefni og allskyns kennileiti í náttúrunni. Heiðurinn að þessum elsta og merkilegasta uppdrætti kaupstaðarins eiga tveir Akureyringar. Þeir voru reyndar af norskum uppruna og þar að auki landmælingamenn og lautenantar í danska hernum. Vera þeirra á Akureyri var liður í metnaðarfullu verkefni hersins í að gera siglingar út af Íslandsströndum hættuminni.

Það var á köldum haustmánuðum 1807 að þreyttir og veðurbarðir ferðalangar komu í kaupstaðinn með farangur sinn í kistum og koffortum. Ferðalagið frá Kaupmannahöfn hafði gengið afar illa. Annars vegar voru það lautenant Hans Frisak 34 ára og kona hans Magdalene Borckgrevik 28 ára. Hins vegar voru það lautenant Hans Jacob Scheel 28 ára og kona hans Anna Rebecca Elisabet Sandberg 19 ára. Á árunum 1808 – 1809 mældu þeir Frisak og Scheel Akureyri og nágrenni og bjuggu til afar vandaðan uppdrátt. Til þess að allar mælingar yrðu sem nákvæmastar slógu þeir saman fjöldamargar vörður úr timbri á brekkubrúnunum ofan kaupstaðarins og víðar til að setja upp mælinet sitt. Á einum stað virðist þó sem jarnbolti hafi verið múraður niður í stein.

Járnboltinn múraður í klappirnar í Naustahverfi.

Á kortinu má sjá þríhyrning með punkt í miðju en þannig voru mælipunktarnir táknaðir. Mælipunkt þennan má enn finna í Naustahverfi. Boltinn er múraður fastur í klappir og ofan á honum er þríhyrningsmerki með punkti í miðjunni, rétt eins og kortið sýnir ef rýnt er í það. Rétt norðanundir eru hinar gríðarstóru mógrafir þar sem almenningur sótti eldsneyti sitt um aldir. Á kortinu sést hvernig Búðarlækur rennur inn í miðjar mógrafirnar en hann kemur ofan úr Naustatjörn. Lækurinn heldur síðan áfram í beygjum og sveigjum niður brekkurnar. Á leið sinni sker hann skurði og gil í landslagið og dregur efnið með sér til sjávar. Á þeim stað þar sem lækurinn rennur í Eyjafjörðinn hefur Akureyrin hlaðist upp með tímanum.  Kortið frá 1809 sýnir þessa landmótun ágætlega og mun betur en við getum lesið úr nýjum kortum enda hefur landslagið á Akureyri umbreyst þó nokkuð á liðnum tveimur öldum.

Jörundur hundadagakonungur hafði augastað á kortinu af Akureyri.

Sumarið 1809 sáu bæjarbúar einkennilegan hóp ríðandi manna nálgast eyrina. Fremstur í flokki sat vígalegur maður á hesti sínum vopnaður pistólu og höggsverði en á eftir honum riðu vopnaðir grænklæddir hermenn í bláum hempum. Hersveitin átti erindi við þorpsbúa. Kort Frisak og Scheels skyldu gerð upptæk en ýmislegt fleira hékk á spýtunni. Maðurinn sem fór fyrir hópnum hét Jörgen Jörgensen. Hann átti síðar eftir að ganga undir nafninu Jörundur hundadagakonungur. Hér er því um stórmerkilegt kort að ræða, bæði í landfræðilegum skilningi sem og sögulegum.

Skyldu Akureyringar vita hvar mælipunktinn er að finna? Vísbendingar um staðsetninguna og ítarlegri umfjöllun Arnars Birgis Ólafssonar um kortið og þá Frisak og Scheel má finna á heimasíðu Grenndargralsins.

UMMÆLI

Sambíó