Sóli Hólm á Græna Hattinum í kvöld – „Akureyringar eiga auðvelt með að hlæja hátt“

Sólmundur Hólm mun sýna splunkunýtt uppistand á Græna Hattinum í kvöld. Sólmundur eða Sóli hefur verið einn vinsælasti skemmtikraftur þjóðarinnar síðustu ár ásamt því að hafa getið sér gott orð í sjónvarpi og útvarpi. Hann þurfti að hverfa úr sviðsljósinu um stund vegna veikinda en hefur undanfarið slegið í gegn á höfuðborgarsvæðinu með nýja uppistandinu og nú fá Akureyringar að njóta.

„Ég er rosalega spenntur að leyfa mínu fólki fyrir norðan að sjá þessa sýningu. Þetta er búið að ganga frábærlega í Reykjavík og samkvæmt minni reynslu eiga Akureyringar og nærsveitamenn mjög auðvelt með hlæja hátt,“ segir Sóli í spjalli við Kaffið.is.

Sóli hefur unnið við uppistand í hátt í átta ár en sýningin í kvöld er sú fyrsta sem er hans eigin eins manns sýning. Hann segir að veikindin hafi hvatt hann áfram.

„Ég ákvað þegar ég veiktist af krabbameini síðasta sumar að þegar mér væri batnað þá myndi ég henda í mitt eigið show með nýju efni. Þetta var eitthvað sem ég hafði látið mig dreyma um að gera lengi en ég einfaldlega þorði ekki að gera þetta. Eftir veikindin er ég hinsvegar óhræddur, fyrst ég lifði þetta krabbamein af þá hlýt ég að lifa smá uppistand af.“

Þetta verður því hans fyrsta eins manns sýning á Græna Hattinum en hann hefur þó skemmt þar reglulega og segir stemninguna einstaka.

„Ég hef skemmt nokkrum sinnum á Græna hattinum með Hvanndalsbræðrum og Gísla Einars og það er eitthvað einstakt við stemninguna á Græna. Þannig að ég er óragur við að lofa frábærri skemmtun á morgun.“

Það er ansi vegleg dagskrá á Græna Hattinum um helgina en auk uppistands Sóla eru Dikta og Í Svörtum Fötum með tónleika. Dikta spila á föstudagskvöld og í Svörtum Fötum á laugardagskvöld.


UMMÆLI

Sambíó