VG

SÖNN NORÐLENSK SAKAMÁL – Helstu verkefni lögreglunnar á Norðurlandi eystra dagana 15.-22. apríl 2018

Lögreglustöðin

Mynd: Kaffið.is/Jónatan.

Sönn norðlensk sakamál er yfirlit yfir helstu verkefni lögreglunnar á Norðurlandi eystra í vikunni sem leið og birtist í fréttablaðinu Norðurlandi. Þessi þáttur er unninn í samstarfi við lögregluna og er ætlaður til að upplýsa samfélagið um það fjölbreytta starf sem lögreglan vinnur og þau saknæmu athæfi sem eiga sér stað í nærumhverfi okkar daglega.

Í liðinni viku var nóg um að vera hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra en hraðaakstur og ölvunarakstur voru töluvert áberandi eins og oft áður en auk þess voru fjölmörg afskipti af vöru- og flutningabílum hjá embættinu. Mikið af fólki kom saman á Akureyri sl. helgi vegna Andrésar andarleikanna en lögreglan segir hátíðina hafa gengið vel fyrir sig og henni barst aðeins ein tilkynning um slys í Hlíðarfjalli. Meðal verkefna lögreglunnar í vikunni var eftirfarandi:

  • 25 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur.
  • Tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur.
  • Tveir ökumenn voru teknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.
  • Tvær minniháttar líkamsárásir voru kærðar til lögreglu.
  • Eitt fíkniefnamál rataði inn á borð lögreglunnar.

Hávært rifrildi fyrir utan Landsbankann – Teknir á 130 km/klst.
Um hádegi sl. mánudag var tilkynnt um erlenda ferðamenn, á húsbíl, að rífast og slást fyrir utan Landsbankann á Akureyri. Þeir voru farnir í burtu þegar lögreglu bar að garði en stuttu síðar voru þeir stöðvaðir í Vaðlaheiði, á leiðinni austur, á hraðanum 130 km/klst. Varðandi atvikið við Landsbankann  gáfu þeir þá skýringu að þeir hefðu verið ósammála um hversu háa fjárhæð ætti að taka út.

Ók bifreið út í skurð og reyndi að yfirgefa vettvang fótgangandi

Síðar þennan dag var tilkynnt um að bifreið hefði verið ekið ofan í skurð á Akureyri.  Starfsmenn verktakafyrirtækis urðu vitni að atvikinu og tilkynntu til lögreglu. Ökumaður bifreiðarinnar ætlaði að yfirgefa vettvang fótgangandi en þá stigu starfsmennirnir í veg fyrir hann og meinuðu honum að fara í burtu. Ökumaðurinn brást ókvæða við og kýldi einn starfsmanninn í andlitið. Þeir yfirbuguðu ökumanninn, lögðu hann flatan og héldu honum þangað til lögreglan kom á staðinn. Hann reyndist bæði ölvaður og undir áhrifum fíkniefna. Starfsmaðurinn, sem ökumaðurinn veittist að, hlaut minniháttar áverka.

Hraðakstur í Hrísey
Í vikunni var kvartað undan hraðakstri í Hrísey. Það er óvenjulegt þar sem ekki eru margar bifreiðar í eynni. Lögregla veit hver ökumaðurinn er.

Andrésarleikarnir gengu áfallalaust fyrir sig
Andrésar andar leikarnir fóru fram í vikunni. Einungis ein tilkynning kom um minniháttar óhapp í Hlíðarfjalli, þar sem ungur skíðakappi meiddist lítilsháttar. Það verður að teljast mjög gott þar sem keppendur voru tæplega 1.000 talsins og mikið fylgdarlið í kringum þá.

Missti prófið rétt fyrir aldamótin – Búinn að aka án ökuréttinda í tæp 20 ár!
Síðastliðinn föstudag var ökumaður stöðvaður út með Eyjafirði grunaður um ölvun við akstur. Í ljós kom að hann hafði misst bílprófið fyrir aldarmót sökum ölvunaraksturs en þá átti hann að endurtaka bílprófið. Það hafði hann aldrei gert og því má segja að ökumaðurinn sé búinn að aka án ökuréttinda í tæp 20 ár.

Málning og eiturefnaóhapp
Sama dag var tilkynnt um að töluvert magn af málningu hefði dottið af bifreið á Dalsbraut á Akureyri og dreifst yfir götuna. Óskað var eftir aðstoð frá slökkviliðinu við þrifin. Auk þess þurfti að loka götunni að hluta fram eftir kvöldi.

Tilkynnt var um vinnuslys í virkjun á starfssvæðinu. Þar hafði orðið eiturefnaóhapp er starfsmaður fékk eiturefnavökva yfir sig. Skjótum viðbrögðum starfsmanns er að þakka að meiðsl urðu minniháttar.

 

UMMÆLI