Spila Monopoly, fara í Spray Tan og róa frá Grenivík til AkureyrarÍna Soffía Hólmgrímsdóttir, forseti skólafélagsins Hugins

Spila Monopoly, fara í Spray Tan og róa frá Grenivík til Akureyrar

Árleg góðgerðarvika Menntaskólans á Akureyri hófst í dag. Öll upphæð sem safnast rennur til Píeta Samtakanna. Ína Soffía Hólmgrímsdóttir, forseti skólafélagsins, segir að nóg verði um að vera í MA þessa vikuna.

„Við erum ótrúlega heppin að fá að halda Góðgerðarvikuna í ár og fá að halda áheiti innan skólans, en á þessum tíma í fyrra var Góðgerðarvikan alveg rafræn en heppnaðist þó mjög vel svoleiðis,“ segir Ína við Kaffið.is í dag.

Hún segir að nemendur skólans hafi kosið að styrkja Píeta samtökin í ár. „Við settum upp nokkra valmöguleika fyrir nemendur skólans þar sem þau kusu samtök og niðurstaðan urðu Píeta Samtökin og erum við mjög spennt, alltaf gaman að styrkja gott málefni.“

Nemendur skólans hafa vakið athygli undanfarin ár með því að safna áheitum í gegnum skemmtilegar áskoranir. Ína segir að engin breyting verði þar á í ár.

„Áskoranirnar í ár eru ótrúlega metnaðarfullar, meðal annars ætla 4 drengir að lyfta 200 tonnum, Tónlistarfélagið ætlar að vera í kvos skólans heilan skóladag með hljóðfærin sín og spila óskalög kennara og nemenda. Eitt af myndbandarfélögunum okkar ætlar að róa frá Grenivík til Akureyrar og margt margt fleira,“ segir Ína en fleiri áskoranir má sjá á myndunum neðst í fréttinni.

„Á fimmtudaginn verður svo Góðgerðarkvöldvaka, það verður takmarkað pláss inn vegna samkomutakmarkana en annars verður henni streymt á facebook síðu Skólafélagins fyrir þá sem komast ekki að. Þar ætlum við að hafa áheiti í gangi á meðan vökunni stendur og uppboð á hlutum fræga fólksins.“

Þrátt fyrir að það sé enn einungis fyrsti dagur Góðgerðarvikunnar hafa þegar safnast yfir 100 þúsund krónur.

„Það er einungis 1 dagur búinn af vikunni og erum við strax komin upp í 115.000 kr svo við erum afar þakklát og stefnum hátt,“ segir Ína að lokum.

Fólk getur hjálpað til við söfnunina með því að leggja inn á eftirfarandi reikning:

KT: 470997-2229

RN: 0162-15-382074

Einnig er hægt að borga í gegnum AUR í símanúmer 663 9358.

Sambíó

UMMÆLI