Staðan á HSN vegna Covid þyngist – Óskað eftir fólki á bakvarðalista

Staðan á HSN vegna Covid þyngist – Óskað eftir fólki á bakvarðalista

Smitum á Norðurlandi fer hratt fjölgandi og hefur það mikil áhrif á starfsemi HSN. Vaxandi fjöldi starfsmanna er frá vinnu vegna Covid eða 67 starfsmenn af 609, sem gerir 11% starfsmanna. Vísbendingar eru um að þetta hlutfall geti hækkað á næstu dögum. Nokkur fjöldi starfsmanna vinnur í vinnusóttkví B. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HSN.

Þar segir að staðan sé sérstaklega þung á Húsavík og Akureyri og að hún fari versnandi á Sauðárkróki, í Fjallabyggð og á Blönduósi. Á Húsavík er hópsmit á hjúkrunar- og sjúkradeildum en þar eru sjö skjólstæðingar með virkt Covid smit.

„Fjarvera starfsmanna og mikið álag í sýnatökum valda því að forgangsraða getur þurft þjónustunni. Í heimahjúkrun þarf til að mynda að forgangsraða heimsóknum. Á heilsugæslustöðvum er áhersla lögð á bráðaþjónustu og fyrirséð er að við munum neyðast til að afbóka eitthvað af skráðum tímum. Bólusetningar eru áfram í forgangi og verða áður auglýstir bólusetningadagar óbreytti,“ segir í tilkynningu HSN.

HSN óskar eftir fólki á bakvarðalista stofnunarinnar. Hægt er að skrá sig hér.

„Íbúar á Norðurlandi eru beðnir um að sýna stöðunni skilning. Vonandi verðum við komin yfir erfiðasta hjallann sem allra fyrst,“ segir í tilkynningunni.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó