Stanslaus traffík í Valdís á Akureyri: „Nánast hver einasti útlendingur tekur mynd af húsinu”

Stanslaus traffík í Valdís á Akureyri: „Nánast hver einasti útlendingur tekur mynd af húsinu”

Ísbúðin Valdís opnaði í miðbæ Akureyrar í byrjun ágúst. Guðmundur Ómarsson og Karen Halldórsdóttir eru eigendur Valdísar á Akureyri og þau segja að viðtökur hafi verið vonum framar.

„Það er greinilegt að það hefur vantað eitthvað nýtt og öðruvísi í ísmenningu á Akureyri. Það er eiginlega hægt að segja að það sé búið að vera stanslaus traffík frá því við opnuðum þann 1.ágúst enda er ísinn okkar alveg einstaklega girnilegur og góður,” segir Guðmundur í spjalli við Kaffið.

Breytingin á hinum sögufræga turni í göngugötunni hefur varla farið fram hjá neinum sem hefur átt þar leið um. Húsið sem hefur skartað mörgum litum í gegnum tíðina er nú orðið blátt og bleikt og búið er að setja upp lítinn garð fyrir framan húsið. Guðmundur er sáttur með hvernig til tókst.

„Við teljum okkur hafa gert mjög vel með húsnæðið og höfum við fengið mikið hrós fyrir að koma þessu fallega húsi í þetta horf. Eins finnst fólki mjög krúttlegt að sjá girðinguna og gervigrasið sem við settum fyrir utan og nánast hver einasti útlendingur sem fer þarna um tekur mynd af húsinu.”

Hægt er að velja úr 24 bragðtegundum af ís og 6 tegundum af sorbet-ís

Sambíó

UMMÆLI