Stefnt á opnun í Hlíðarfjalli 28. nóvember

Allir á skíði

Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli hefur opnað fyrir sölu á vetrarkortum fyrir fullorðna. Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli, segir að þetta sé meðal annars gert til að hita upp fyrir veturinn og koma fólki í gírinn en einnig til að flýta fyrir afgreiðslu vetrarkortanna þegar snjórinn loks fellur. Boðið verður upp á afslátt af kortum til 1. desember næstkomandi.

„Þeir sem kaupa strax fá þennan fína afslátt og það er líka vert að nefna að gjaldskráin í lyfturnar hjá okkur hefur ekkert hækkað á milli ára sem hlýtur að vera mikið ánægjuefni fyrir skíða- og brettafólk,“ segir Guðmundur Karl í samtali við heimasíðu Akureyrarbæjar og bætir við: „Það er líka eins gott að setja vetrarkortið í vasann sem fyrst því ég finn það á mér að bráðum fer að snjóa og það meira en lítið.“

Stefnt er að opnun svæðisins 28. nóvember ef aðstæður leyfa. Svæðið opnar yfirleitt um mánaðarmótin nóvember desember. Svæðið verður svo opið til 22. apríl næsta vor. Það er að jafnaði opið 110 daga á ári hverju.

UMMÆLI