Stelpur í Menntaskólanum senda frá sér djammlag: „Stelpur geta alveg líka verið fyndnar“

Stelpur í Menntaskólanum senda frá sér djammlag: „Stelpur geta alveg líka verið fyndnar“

StemMA, stelpumyndbandafélag í Menntaskólanum á Akureyri sendi frá sér sitt fyrsta lag á dögunum.

Í Menntaskólanum á Akureyri hefur lengi tíðkast að reka myndbandafélög en StemMA hefur ekki verið virkt félag undandarin ár. Þær Berglind Halla Þórðardóttir, Bjartey Unnur Stefánsdóttir,Elísabet Kristjánsdóttir, Guðný Eva Björnsdóttir, Guðrún Birna Örvarsdóttir, Hugrún Lív Magnúsdóttir, Karen Birta Pálsdóttir Maitsland, Lovísa Marý, Magnea Vignisdóttir og Rakel Reynisdóttir ákváðu að endurvekja félagið á þessu skólaári og hafa sent frá sér sketsa í vetur.

„Það tíðkast að það séu myndbandafélög í MA en StemMA hefur alltaf horfið einhvernveginn, síðasta skólaár voru tvö myndbandafélög sem voru bara strákar en maður sá varla neitt af neinu stelpu myndbandafélagi eða StemMA,“ segir Elísabet í samtali við Kaffið.

„Þegar við komum á þriðja og síðasta árið langaði okkur að grafa StemMA aftur upp og sanna að stelpur geta alveg líka verið fyndnar.“

StemMA sendi svo frá sér sitt fyrsta lag á árshátíð skólans í síðustu viku. Lagið heitir Sleppa takinu og hefur slegið í gegn innan veggja skólans. Elísabet segir þó að það sé erfitt að finna stelpur í þessum bransa.

„Við reyndum að finna innblástur frá öðrum íslenskum stelpum sem hafa gert svipuð lög en fundum ekki neitt,“ segir hún.

„Lagið er í rauninni bara mjög týpískt „djammlag“ nema það höfðar kannski meira til stelpna en önnur týpísk lög sem til dæmis Séra Bjössi, Clubdub, 101 Boys og Kop boys en það er vert að nefna að það eru engar stelpur þarna.“

„Við erum mjög sáttar við lagið okkar og alla hjálpina sem við fengum en Stefán Svanur gerði taktinn. Það er hægt að hlusta á lagið á Spotify og Youtube en við gerðum smá tónlistarmyndband við lagið þar sem það eru bara einhver djammyndbönd af okkur og svo krakkar í skólanum inn á milli að dansa, fólk hefur almennt haft bara gaman af því. Einnig er hægt að sjá fleiri grínsketsa frá okkur á Youtube.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó