Í dag 13. maí, kl. 04:02 varð jarðskjálfti 4,7 að stærð rétt austan við Grímsey. Þetta segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Þar segir einnig:
Yfir 300 eftirskjálftar hafa mælst í hrinunni, sá stærsti var 3,2 að stærð. Veðurstofu hafa borist tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist í byggð á Norðurlandi. Þann 08. september 2022 var skjálfti 4,5 að stærð á sama svæði og 02. apríl 2013 var skjálfti 5,4 að stærð. Skjálftar og hrinur á svæðinu eru algengar.
Kaffið ræddi við Grímseyinginn Önnu Maríu Sigvaldadóttur í dag. Hún segist ekki hafa vaknað við skjálftan sjálfan, en segir að eiginmaður hennar hafi gert það og að viðbrögð hans við skjálftanum hafi vakið hana. Fyrsta klukkutímann eftir stóra skjálftann fann hún greinilega fyrir eftirskjálftum. Anna hefur heyrt frá öðrum eyjaskeggjum sem vöknuðu við skjálftann og segir að blessunarlega hafi ekkert tjón orðið á eigum fólks svo hún viti til.
Talsverð skjálftavirkni hefur verið á svæðinu það sem af er ári. Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur sagði í viðtali við mbl í mars að líklegast væri um tektóníska skjálftavirkni að ræða. Skjálftsvæðið sem um ræðir liggur á Tjörnesbrotabeltinu, sem er hjáreksbelti. Hann útilokaði þó ekki að einhver kvikuhreyfing tengdist virkninni.
UMMÆLI