Stórt skref aftur á bak

Katrín Hólmgrímsdóttur skrifar

Eitt umdeildasta málefni líðandi stundar er áfengissala landsins. Nú í sjötta skipti hefur nýtt áfengisfrumvarp verið lagt fram á Alþingi þar sem lagt er til að áfengi verði selt í matvöruverslunum. Mér þykir þetta slæm þróun og mótmæli harðlega.

Fjölmargar rannsóknir sýna að áfengissala í matvöruverslunum leiði til aukinnar áfengisneyslu. Það er aðallega vegna greiðara aðgengis og það að sjá áfengi, þegar þú ert að framkvæma hversdagslega hluti eins og að versla í matinn, freistar mikið.  Aukin áfengisneysla leiðir til margskonar samfélagslegra vandamála. Það er meiri hætta á alvarlegum sjúkdómum, t.d. lifrarsjúkdómum og sykursýki. Einnig hækkar tíðni umferðarslysa, heimilis- og kynferðisofbeldis, lögbrota og jafnvel ótímabærra dauðsfalla. Erum við tilbúin að fórna lýðheilsu okkar og jafnvel öryggi til þess eins að þurfa ekki að fara út í Vínbúðina sem er með fleiri útibú á landinu en heilsugæslustöðvar?

 Ísland er eitt af þeim löndum sem er með minnstu unglingadrykkju í heimi. Með því að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum stuðlum við að aukinni unglingadrykkju. Bæði þar sem foreldrar unglinga munu líklega drekka meira og setja þannig verra fordæmi og takmörk fyrir börnin sín og aðgengi þeirra að áfengi eykst til muna. Þá getum við hvorki útilokað að unglingar afgreiði áfengið í matvöruverslunum né að þeir  komist upp með að kaupa það. Við getum í það minnsta ályktað sem svo ef miðað er við reynsluna af sölu tóbaks.

 Rannsóknir sýna einnig að forvarnir og fræðsla um áfengi í skólum hefur mikil áhrif og að unglingadrykkja minnkaði um tugi prósenta síðustu áratugi. Ég tel þetta jákvæða þróun en vil að foreldrar fái sömu fræðslu svo þeir átti sig betur á hve hræðileg áhrif áfengi getur haft á líf unglinga og barna. Jafnvel þó að börnin neyti þess ekki sjálf. Ég tel að fullorðnir einstaklingar í samfélaginu ættu að gera sér grein fyrir að ef áfengi verður fært í matvöruverslanir erum við að senda röng skilaboð til barna okkar og taka léttvæga afstöðu til skaðsemis áfengis. Ekki má gleyma því að þetta er stórhættuleg vara sem hefur sundrað fjölskyldum og tekið líf.

Mín niðurstaða er því sú að við værum að taka stórt skref aftur á bak ef við leyfum áfengissölu í matvöruverslunum. Það hefur bæði slæm áhrif á samfélagið og ungmenni landsins og þurfum við að sýna virðingu og rétta áfengissjúklingum hjálparhönd. Áfengi er hættuleg vara sem þarf að umgangast með varúð og held ég að öllum sé fyrir bestu ef hún verður áfram seld í sérstökum áfengisverslunum.

Katrín Hólmgrímsdóttir,

framhaldsskólanemi.

UMMÆLI