Strætóleiðarkerfi gæti stækkað til muna

Strætóleiðarkerfi gæti stækkað til muna

Nýverið var gjaldtaka strætó til umræðu á bæjarstjórnarfundi Akureyrarbæjar. Þar var farið inn á að nýtt hverfi væri risið, Hagahverfið, og því liggur við að stækka þurfi leiðarkerfi Strætó. Einnig var tekið fram að mikilvægt væri að bæta við ferðum á flugvöllinn og að tjaldsvæðinu Hömrum á sumrin.

Eins og Rúv greinir frá segir Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, að þétta þurfi kerfið og fjölga vögnum. Hann segir bætta þjónustu kalla á aukinn kostnað og að viðbótarkostnaður við rekstur á einum vagni sé um það bil 50 milljónir króna á ári.
Gunnar spurði í kjölfarið hvort að tilefni sé til að taka þá aftur upp gjaldtöku, þó ekki nema væri hjá fullorðnu fólki. Í frétt Rúv segir:

„Aðspurður hvort það sé hægt að stækka leiðarkerfið án gjaldtöku segir hann að allt sé hægt, þetta sé bara spurning um vilja og forgangsröðun. Það sé hægt að stækka og þétta kerfið ef bærinn er tilbúinn að setja milljónir í þetta. Það sé nauðsynlegt að reyna að auka notkun á vögnunum og draga þannig úr annarri umferð en það verði ekki gert nema kerfið sé öflugra.“

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, segir hins vegar að gjaldtaka standi ekki til. Það sé ekki í fjárhagsáætlun á þessu ári a.m.k. Hún segir að eitt af aðalsmerkjum Akureyrarbæjar sé að frítt sé í strætó og að það sé mikilvægt fyrir ungt fólk og umhverfið.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó