Sviðslistahópurinn Hnoðri í norðri hlaut Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar

Sviðslistahópurinn Hnoðri í norðri hlaut Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar

Norðlenski sviðslistahópurinn Hnoðri í norðri hlaut á miðvikudaginn Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar sem Frú Eliza Reid forsetafrú og verndari Eyrarrósarinnar veitti við hátíðlega athöfn á Hvammstanga.

Sjá einnig: Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði hlaut Eyrarrósina

Hnoðri í norðri samanstendur af atvinnulistamönnum sem þrjú af sex eru búsett og starfandi á Akureyri. Höfundur og hirðtónskáld hópsins er Þórunn Guðmundsdóttir, en aðalsmerki hennar eru frábærlega fyndnir og hnittnir textar með orðaleikjum auk þess sem tónlist hennar er mjög aðgengileg og yndisleg áheyrnar. Leikstjóri er Jenný Lára Arnórsdóttir sem þar að auki hannar og gerir leikmyndir og Rósa Ásgeirsdóttir hannar og gerir búninga. Flytjendur eru Jón Þorsteinn Reynisson harmonikkuleikari og söngkonurnar Björk Níelsdóttir og Erla Dóra Vogler.

Sviðslistahópurinn leggur metnað sinn í að flytja vandaða tónlist og óperusýningar fyrir börn á Norðurlandi. Hópurinn fann fyrir miklum meðbyr og gleði í leikferð sinni um Norðurland síðastliðinn nóvember þegar þau ferðuðust um með sýninguna Ævintýri á aðventunni þar sem bæði nemendur og kennarar lýstu mikilli gleði með sýninguna og sögðu vöntun á viðburðum sem þessum. Enda voru mörg barnanna að heyra óperusöng í fyrsta skiptið. Verkið var frumflutt á þessum sýningum sem fóru fram í samvinnu við List fyrir alla og með góðum styrkjum frá SSNE, Tónlistarsjóði, Tónskáldasjóði, Menningarsjóði FÍH, Menningarsjóði Akureyrar og Samfélagssjóði Norðurorku. Sýnt var á 8 dögum á 25 stöðum og sáu tæplega 2000 börn á Norðurlandi frá Vopnafirði til Hvammstanga sýninguna. Börn jafnt sem kennarar tóku henni afar vel og hlógu mikið.

Markmið næsta starfsárs er að frumflytja aðra gleðilega alíslenska öróperu, Skoffín og skringilmenni, fyrir alla 6-10 ára grunnskólanema á Norðaustur og -vesturlandi. Skoffín og skringilmenni verður stutt og laggóð sýning, eða um 30-35 mín að lengd, og er efniviður sóttur annars vegar í hinn undarlega íslenska þjóðsöguarf, sem tengist áramótum og þrettándanum, og hins vegar hina sjarmerandi evrópsku óperuhefð. Menningar- og viðurkenningarsjóður KEA hefur þegar styrkt verkefnið.

UMMÆLI

Sambíó