Prenthaus

„Svo gaman að vera í KA þessa dagana“

„Svo gaman að vera í KA þessa dagana“

Það gengur vel hjá íþróttaliðum KA þessa dagana. Í dag vann knattspyrnulið félagsins ÍBV í Bestu deild karla í fótbolta 3-0. Handboltalið félagsins KA og KA/Þór eru bæði á fullu í úrslitakeppnum í handboltanum og kvennalið félagsins í blaki er 1-0 yfir einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna.

Á morgun tekur handboltalið KA á móti Haukum í öðrum leik 8-liða úrslitum Olísdeildar karla í handbolta. Óðinn Þór Ríkharðasson tryggði KA sigur á útivelli gegn Haukum í fyrsta leik liðanna þegar hann skoraði úr vítakasti á síðustu sekúndu. Ka vann leikinn 30:29. Kvennalið KA/Þór mun einnig mæta Haukum í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn.

Kvennalið KA í blaki vann í dag hrikalega sannfærandi 3-0 sigur á Aftureldingu í fyrsta leik liðanna í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna. Liðin mætast aftur á þriðjudaginn í Mosfellsbæ en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja Íslandsmeistaratitilinn.

Karlalið KA í fótboltanum er með sex stig eftir fyrstu tvo leikina í Bestu deildinni þetta sumarið og fer vel af stað. KA byrjaði sumarið með 1-0 sigri á Leiknismönnum á Dalvíkurvelli og vann ÍBV 3-0 á útivelli í dag.

Siguróli Magni Sigurðsson, íþróttafulltrúi KA, er líkt og flest KA fólk kátur þessa dagana. „Það er svo gaman að vera í KA þessa dagana! Það er ekki sjàlfgefið að keppa meðal þeirra bestu allstaðar. Pepsi fer rooosalega vel af stað. Stelpurnar í blakinu komnar í 1-0 í finals og loks bæði kk og kvk í handboltanum að keppa í úrslitakeppni! Það er eitthvað við þetta fèlag,“ skrifaði hann á Twitter í dag.

UMMÆLI

Sambíó