Sýnum lit

Sýnum lit

Í dag er bleiki dagurinn. Dagurinn þar sem við erum hvött til að sýna lit, klæðast bleiku og bera bleiku slaufuna. Með þeim hætti erum við að sýna konum stuðning sem greinst hafa með krabbamein. Það er sko grimmur sjúkdómur og veitir því ekki af því að við sýnum hvort öðru samstöðu.

Samkvæmt heimasíðunni bleikaslaufan.is má einn af hverjum þremur einstaklingum búast við að greinast með krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Það þýðir að miklar líkur eru á að við sjálf veikjumst eða einhver í kringum okkur. Krabbamein snertir okkur þess vegna öll. Þar af leiðandi ætti ekki að vera spurning að sýna lit í dag og klæða sig upp.

Það er afar ógnvænlegt að hugsa til þess hve miklar líkur eru á að maður fái krabbamein einn daginn. En á sama tíma er það ágætis áminning. Við erum ekki ódauðleg og við höfum það oft ansi gott án þess að átta okkur á því. Í hversdagsleikanum er auðvelt að gleyma hvað hver dagur er dýrmætur en þá er ágætt að fá áminningu. Við þurfum á því að halda.

Ég hef lengi verið með dagbók þar sem ég skrifa niður hugsanir, tilfinningar og almennar vangaveltur. Ég byrjaði aftur á móti fyrir um tveimur mánuðum að skrifa daglega á morgnanna hvað ég er þakklát fyrir og hvernig ég ætlaði að fara inn í daginn. Með þessum hætti er ég að stilla mig inn í daginn og koma í veg fyrir að ég detti á sjálfsstýringu. Það vill enginn lifa lífinu þannig. Þá eigum við það til að gleyma okkur. Ég mæli þess vegna með að finna leið til að minna sjálfan sig á. Af því að dagurinn í dag er ekki sjálfsagður.

Hver dagur er gjöf. Við þurfum bara að sjá það. Auðvitað er rigning og rok suma daga og minna spennandi verkefni á dagskrá. En það þýðir ekki að hægt sé að gera það besta úr aðstæðum. Vera þakklátur fyrir daginn sem manni er gefinn. Og í dag skulum við gera það í bleiku!

*Each day is a gift, that’s why we call it the present*

UMMÆLI

Sambíó