Tæknin getur fylgst með öllu sem við gerum

Tæknin getur fylgst með öllu sem við gerum

Allir eiga rétt á því að fá að vita hvaða upplýsingar er verið að vinna með um sig. Persónuvernd gætir hagsmuna almennings, þannig að mannréttindi séu ekki brotin við meðferð og vinnslu persónuupplýsinga. Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar var gestur Karls Eskils Pálssonar í Landsbyggðum á N4.

Þáttinn má nálgast í heild sinni á n4.is og á Facebooksíðu N4 – N4 Sjónvarp.

„Það eru að verða meiri breytingar í þessu umhverfi en við höfum séð í tugi ára, það er alveg ljóst og við höfum nýlega fengið í fangið umfangsmestu löggjöfina sem fram hefur komið í um tuttugu ár á sviði persónuverndar. Tæknibyltingin gerir það að verkum að óteljandi möguleikar verða raunhæfir hvað varðar vinnu og meðferð persónuupplýsinga. Möguleikarnir í þessum efnum eru svo miklir að það þurfti nauðsynlega að bregðast við og setja gríðarlega mikla löggjöf í þessum efnum,“ segir Helga.

Upplýsingum safnað saman í óljósum tilgangi

„Já, það er rétt. Stærstu fyrirtæki hemsins eru einmitt þau sem vinna með persónuupplýsingar, áður voru olíufyrirtækin stærst og öflugust. Í dag er talað um að persónuupplýsingar séu olía 21. aldarinnar. Öll fyrirtæki og hið opinera eru á hverjum degi að vinna með margvíslegar persónuupplýsingar og það sem hefur gerst á síðustu árum er að þessar miklu tækni-nýjungar snerta persónuverndina með mjög ákveðnum hætti. Þá er ég til dæmis að tala um Internetið, öll snjalltækin sem eru tengd við netið og einnig svokölluð gríðargögn, eða Big Data. Þar er ofboðslegu magni af upplýsingum safnað saman í óljósum tilgangi. Ég nefni í þessu samhengi einnig gervigreindina, þegar vélar taka ákvarðanir sem snerta okkur öll með einum eða öðrum hætti. Tölvur eru sem sagt farnar að vinna með miklar upplýsingar sem mataðar eru á persónuupplýsingum. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa öflug persónuverndarlög, vegna þess að við eigum rétt á því að vita hverjir eru að vinna upplýsingar um okkur, hvenær og í hvaða tilgangi.“

Innviðir þjóða í hættu

„Það eru mörg hættumerki á lofti varðandi öryggismál þjóða heimsins. Snjalltækin hafa til dæmis verið notuð til þess að lama innviði heillar þjóðar. Við þekkjum umræðuna um árásir á ljósritunarvélar, sem höfðu mikil áhrif víða í Evrópu. Heilbrigðisþjónustan er nettengd og orkufyrirtæki sömuleiðis, svo ég nefni dæmi. Við erum sem sagt ekki bara að tala um nettengd tæki á heimilum, eins og brauðristar, ískápa, öryggiskerfi og ljós. Heilu innviðir þjóða eru undir í nettengdum tækjum og búnaði. Eðli þessara stóru fyrirtækja er safna saman eins miklum upplýsingum og hægt er.“

Ekkert kerfi er algjörlega öruggt

„Samfélagsmiðlarnir gera okkur kleift að tala við umheiminn, eins og til dæmis Facebook. Það eitt og sér er á margarn hátt stórkostlegt. Þegar fólk tjáir sig ótæpilega á samfélagsmiðlum, verður hinn sami líka að gera sér grein fyrir því að úr öllum þessum upplýsingum er unnið á einn eða annan hátt. Allt sem við setjum á samfélagsmiðlana, skapar möguleika fyrir stórfyrirtæki að búa til verðmæti úr þeim gögnum. Skólar notuðu samfélagsmiðla í miklu mæli og Persónuvernd taldi nauðsynlegt að bregðast við þessari miklu notkun. Sömu sögu er að segja um íþróttafélög, félagsmiðstöðvar og fleiri skylda aðila. Allt sem fer inn á samfélagsmiðla er deilt til annarra af fyrirtækjum sem ítrekað hafa orðið uppvís af því að brjóta reglur um meðferð persónuupplýsinga. Almennt séð held ég að fólk sé að gera sér grein fyrir þessu öllu saman, en við verðum að vera á varðbergi hvað þetta allt saman varðar. Ekkert kerfi er algjörlega öruggt og þess vegna þarf að gæta þess vel og vandlega hvaða upplýsingar eru skráðar í kerfin, því þær verða til um aldur og ævi.“

Áslátturinn á lyklaborðið veitir upplýsingar

„Margir segjast ekkert hafa að fela, lífið sé ósköp einfalt og alveg eins dag eftir dag. Vinna, borða og sofa. Rýnin er hins vegar svo fullkomin að það er hægt að segja að tæknin þekki okkur betur en við sjálf gerum. Þegar við höldum því fram að við höfum ekkert að fela, þá er það samt sem áður þannig að allar upplýsingar eru verðmætar á einhvern hátt. Raddgreiningartæknin er til dæmis mjög fullkomin og hljóðneminn í símanum gefur þessum stórfyrirtækjum ákveðnar upplýsingar, svo dæmi sé tekið.

Jafnvel áslátturinn á lyklaboðið veitir þeim upplýsingar sem verða að söluvöru. Þannig að sá sem lifir einföldu lífi og hefur ekkert að fela, sendir daglega frá sér upplýsingar sem breytast í vermæti hjá einhverjum öðrum.“

Betri vernd

„Hlutverk Persónuverndar er að miðla fræðslu og veita upplýsingar. Einstaklingar, stjórnvöld og fyrirtæki þurfa að vera vel vakandi í þessum efnum. Allir ættu að kynna sér efni nýju ruglurnar um persónuvernd og þá auknu réttarvernd sem þær hafa í för með sér þegar fyrirtæki og stofnanir vinna með persónuupplýsingar. Eitt meginmarkmið þeirra endurbóta sem gerðar hafa verið á evrópskri persónuverndarlöggjöf er að veita einstaklingum betri vernd og færa þeim aukinn ákvörðunarrétt yfir persónuupplýsingum sínum í þeim tilgangi að fela þeim stjórn yfir því hver vinnur upplýsingar um þá, hvenær og í hvaða tilgangi,“ segir Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar.

Hægt er að horfa á Föstudagsþáttinn á n4.is og á Facebooksíðu N4 – N4 Sjónvarp.

UMMÆLI