Kvennaathvarfið
Færeyjar 2024

Telja að ekki sé hægt að tryggja öryggi iðkenda í Íþróttahúsinu við Glerárskóla

Vegna atburðar á körfuboltaæfingu hjá einum af yngri flokkum Þórs í Glerárskóla í gær hefur æfingum körfuboltadeildarinnar í húsinu verið frestað um óákveðinn tíma. Önnur af stóru körfunum í húsinu féll niður og telur Unglingaráð Þórs í körfubolta að ekki sé hægt að tryggja öryggi iðkenda í húsinu.

Tölvupóstur var sendur á foreldra allra iðkenda í morgun þar sem tilkynnt var að allar æfingar myndu falla niður þar til annað væri tilkynnt.

Íþróttahúsið í Glerárskóla hefur verið gagnrýnt mikið í gegnum tíðina. Körfuboltaþjálfarinn Bjarki Ármann Oddson skrifaði færslu fyrr á árinu þar sem hann gagnrýndi gólfið og körfurnar í húsinu. Þar hvatti hann til þess að lagt yrði nýtt gólf í húsið og að nýjar körfur yrðu hengdar upp.

Í dag sendi unglingaráð körfuboltadeildar Þórs svo frá sér yfirlýsingu sem má lesa í heild sinni hér að neðan.

Yfirlýsing frá unglingaráði körfuboltadeildar Þórs, vegna óhapps í Glerárskóla.

Fimmtudaginn 28.september, þegar við vorum flest að fagna glæsilegum Íslandsmeistaratitli stelpnanna okkar í Þór/Ka, varð afar hættulegt óhapp í Glerárskóla. Stálvír er heldur uppi annarri stóru aðalkörfunni í salnum slitnaði með þeim afleiðingum að hann sveiflaðist til með veggfestingunni, bolta og járni og skall í gólfið með miklum látum enda um þungt stykki að ræða. Sem betur fer var æfingu að ljúka og iðkendur voru að ganga frá en festinginn féll niður skammt frá einum dreng er stóð rétt hjá. Það þarf ekki að spyrja að því hvernig hefði farið ef festinginn hefði slegist í barn, þarna hefði getað orðið stórslys. Við í körfunni höfum um árabil kvartað undan aðstöðunni í Glerárskóla við bæjaryfirvöld, án árangurs. Hefur körfuboltadeildin sótt fast að fá tíma í öðrum húsum þar sem Glerárskóli er ekki öruggur fyrir börnin okkar, það fékkst endanlega staðfest í gær. Glerárskóli er aðalhús körfuboltadeildarinnar fyrir alla sína yngri flokka og um þessar mundir eru rúmlega 150 krakkar að æfa körfu í þessu húsi í hverri viku. Þegar öryggi barna okkar er ógnað er ekki hægt að una lengur við. Unglingaráð körfuboltadeildarinnar mun ekki senda börn og ungmenni á æfingar í Glerárskóla meðan öryggi þeirra er ekki tryggt. Af þeim sökum falla niður allar æfingar í Glerárskóla á næstunni. Það er von unglingaráðs körfuboltadeildar Þórs að foreldrar barna og ungmenna í körfu láti nú í sér heyra, þetta er ekki boðleg aðstaða sem hægt er að bjóða börnunum okkar upp á. Einnig hvetjum við foreldra barna í Glerárskóla að láta í sér heyra, við erum að tala um öryggi barna okkar í skóla og frístundum.

Fyrir hönd unglingaráðs körfuboltadeildar Þórs, Ingi Þór Ágústsson Formaður.

 

UMMÆLI