Telja að grundvöllur sé fyrir millilandaflugi um AkureyrarflugvöllMynd: Markaðsstofa Norðurlands

Telja að grundvöllur sé fyrir millilandaflugi um Akureyrarflugvöll

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, flugmaður og talsmaður vinnuhóps sem hefur starfað undir heitinu N-Ice Air (North Iceland Air: Fly N-Ice), kynnti nýverið verkefni sem hann hefur verið að vinna að í tengslum við millilandaflug um Akureyrarflugvöll. Þorvaldur segir að rannsókn hópsins sýni að full ástæða sé til að ætla að grundvöllur sé fyrir millilandaflugi til og frá Akureyri að minnsta kosti fimm sinnum í viku. Þetta kemur fram í Vikublaðinu.

Þar segir að hópurinn, sem samanstandi meðal annars af fulltrúum frá Norlandair, Samherja og Höldi, hafi undanfarið kannað grundvöll þess að koma á fót reglubundnu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll til frambúðar.

Hópurinn bendir meðal annars á að aksturstíminn til Keflavíkur sé að meðaltali 6 til 9 klukkustundir og að fólk meti útlagðan kostnað við ferðalag til Keflavíkur á bilinu 64-132 þúsund krónur. Einnig er bent á að upptökusvæði Akureyrarflugvallar sé með svipaðan mannfjölda og Færeyjar en þaðan voru allt að ellefu millilandaflug á dag fyrir Covid-19 heimsfaraldurinn.

„Könnun MMR er afar hvetjandi og styrkir  tiltrú hópsins um góðan grundvöll fyrir reglubundnu flugi,“ segir Þorvaldur Lúðvík í samtali við Vikublaðið en ítarlega umfjöllun um málið má finna á vef Vikublaðsins með því að smella hér.


UMMÆLI