Þegar ég kom út úr skápnum

Sr. Svavar Alfreð Jónsson skrifar:

Fyrir allmörgum árum var ég beðinn að skíra fyrsta barn ungs pars á heimili þess í lítilli risíbúð hér í bæ. Eftir að hafa gengið með embættisskrúðann í tösku upp brattan stiga knúði ég dyra. Hreyknir foreldrar hleyptu mér inn í þrönga forstofu. Þaðan gekk ég inn í stofuna sem var þéttskipuð prúðbúnu fólki en var vísað aftur fram í forstofuna til að fara í hempuna.

Athöfnin gekk ljómandi vel og sakaði ekki þótt skírnarbarnið gréti aðeins. „It´s my party and I´ll cry if I want to,“ segir í dægurlagatextanum en svo mörgum gestum höfðu foreldrarnir nýbökuðu boðið til skírnarinnar að timburgólfið dúaði undir fótum okkar.

Þegar barnið hafði verið vatni ausið og myndatökur afstaðnar gekk ég aftur fram í forstofuna til að afskrýðast. Ég lokaði á eftir mér en þegar ég leit upp sá ég að ég hafði farið inn um um vitlausar dyr og gengið rakleitt og virðulega inn í kústaskáp sem var við hliðina á forstofunni.

Dágóða stund beið ég þar með þungan salmíaksþef í nösum innan um skrúbba, sópa, plastfötur, tuskur, gúmmíhanska og þrifbrúsa og hugsaði ráð mitt áður en ég réðst til inngöngu í troðfulla stofuna á ný. Þegar ég lauk upp dyrum kústaskápsins gerði ég það með eins miklum prestslegum þokka og mér var unnt. Mætti mér fullt af uppglenntum og undrandi augum og spennuþrungin grafarþögn sem var þó fljótlega rofin af dynjandi hlátrasköllum.

Ég er ekki viss um að ég hafi verið fyrstur íslenskra presta til að koma út úr skápnum en ég hugsa að ég hafi verið fyrstur til að gera það í fullum skrúða.

Sr. Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur Akureyrarkirkju

Pistillinn birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi 14. júní

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó