Þegar ég var næstum stungin

Sesselía Ólafsdóttir skrifar:

Þegar ég var við nám erlendis gleymdi ég einu sinni bók heima hjá mér og hljóp heim til að ná í hana. Ég flýtti mér og kom aldrei til hugar að það væri hugsanlega ekki góð hugmynd að hlaupa aftan að hóp af ungum strákum á mínum aldri.

Þegar ég kom að þeim sneru þeir sér skyndilega við með hnífa á lofti, svo ég hljóp næstum á einn hnífinn. Þeir rétt náðu að kippa hnífunum frá þegar ég hljóp framhjá þeim.

Ég veit ekki hvert okkar var hræddast á þessu augnabliki, en ég held það hafi ekki verið ég. Strákarnir voru augljóslega skelfingu lostnir yfir því sem hefði getað gerst og kölluðu á eftir mér:

„Passaðu þig!“, „Guð minn góður, við hefðum getað stungið þig!“, „Ekki hlaupa aftan að gengjum, það er hættulegt!“, „Farðu varlega!“

Allt sagt af bróðurlegri umhyggju, í sama tóni og móðir sem kallar á eftir barninu sínu að passa sig að klæða sig vel.

„Ég geri það! Takk fyrir!“ kallaði ég ringluð til baka, ennþá hlaupandi.

Þeir bjuggust greinilega við árás annars gengis og að mögulega myndu þeir þurfa að ógna einhverjum með hnífi, en höfðu takmarkaðan áhuga á að stinga einhvern í alvöru.

Venjulegir unglingar eins og ég, sem höfðu alist upp í umhverfi þar sem þeir þurfa stöðugt að vera á varðbergi, þar sem öryggið finnst í fjöldanum og þar sem vinahópar eru kallaðir gengi.

Það var hraður umsnúningur úr því að ógna lífi einhvers yfir í vingjarnlegar ráðleggingar.

Fólk getur komið manni skemmtilega á óvart.

Sesselía Ólafsdóttir, leikkona og Vandræðaskáld.

Pistillinn birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi 28. júní

 

UMMÆLI