Þegar lífið tekur nýja stefnu

Þegar lífið tekur nýja stefnu

Þegar Þuríður Harpa Sigurðardóttir lamaðist fyrir neðan brjóst stóð hún á fertugu, þriggja barna móðir á Sauðárkróki. Lífið hafði gengið sinn vana gang, ef svo má segja, allt þar til einn örlagaríkan dag í apríl mánuði 2007 þegar að lífið tók óvænta stefnu og nýtt hlutverk blasti við henni og fjölskyldunni. Hún er í dag formaður Öryrkjabandalags Íslands og nýtir þar sama baráttuanda og hefur einkennt hana í gegnum ferlið að takast á við afleiðing- arnar af slysinu sem setti hana í hjólastól. Hún sagði sögu sína í þættinum Þegar hjá Maríu Björk á N4.

Viðtalið má nálgast í heild á n4.is með því að smella hér, eða á Facebook-síðu N4, N4 Sjónvarp.

Eins og hver annar dagur

„Þetta var bara eins og hver annar dagur. Ég vaknaði, kom börnunum á lappir, sendi þau í skólann og var síðan komin sjálf í vinnu um klukkan átta. Ég er grafískur hönnuður og á þessum tíma rak ég fyrirtækið Nýprent á Sauðárkróki. Þennan dag var ég að vinna allan daginn í skýrslu sem var komin á skiladag. Það var mikil pressa og ég var kominn í yfirvinnu þegar að sambýlismaðurinn minn hringdi í mig rúmlega fimm og spurði hvort ég gæti hjálpað honum að flytja hross yfir í Hegranes. Mér þótti gott að fá loks tækifæri til þess að standa upp og fara í eitthvað allt annað verkefni þannig að ég stökk á tækifærið og dreif mig af stað. Ég keyrði heim, græjaði mig í reiðgallann og svo beint út í hesthús.“

Missti algjörlega stjórnina

„Það æxlast þannig að ég fer á bak á hrossi sem ég hafði aldrei riðið áður og við leggjum af stað með nokkur hross yfir í Hegranes. Ég fann fljótt að mér fannst hún frekar óþægileg en ákvað að hafa ekkert orð á því neitt sérstaklega. Þegar að við erum komin yfir í Hegranesið og yfir veginn þar, þá tekur hún strauið og ég missi algjörlega stjórnina. Ég fór strax að undirbúa mig undir það að fara af baki og losaði mig því úr ístöðunum því ég ætlaði ekki að vera föst í þeim og dragast á eftir henni. Hún stekkur þá út í mýri og sekkur á kaf með framfæturna. Ég flýg þá fram fyrir hestinn í stóran boga og lendi á brjóstbakinu beint á ofan á steinnibbu. Þetta gerðist allt saman á örskotstundu. Ég horfi á fæturnar á mér og hugsa strax að það sé eitthvað mikið að.“

Enginn læknir tiltækur

„Ég var ekkert kvalin eða neitt slíkt, en allt í einu varð allt rosalega skýrt í höfðinu á mér. Ég man að dagurinn á undan fór að rifjast upp mjög nákvæmlega, hver einasta mínúta og sekúnda sem leiddi til þessa atviks. Síðan kemur sjúkrabíllinn sem keyrir mig á Sauðárkrók og þaðan er ég síðan flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Það var búið að undirbúa mig undir að fara beint í aðgerð en það náðist hinsvegar ekki í lækninn á bakvakt sem átti að skera mig og læknirinn á vakt var þá búinn að vera vakandi í of marga klukkutíma til þess að geta skorið mig upp. Ég var því látin bíða til morguns.“

Gæti gengið til baka

„Mér hefur alltaf þótt þetta fremur óþægileg niðurstaða, að það skyldi ekki vera hægt að ná í lækni árið 2007 og það í öllu góðærinu. Ég fer síðan í uppskurð daginn eftir og þar kemur í ljós að ég er hryggbrotinn og einn hryggjaliðurinn mölbrotinn. Mænan var þá marin og það illa farinn að læknarnir töldu það ekki víst að ég fengi mátt aftur. En þeir sögðu alltaf að þetta gæti komið til baka á einu ári. Ég ligg þarna inní í þrjár vikur áður en ég er síðan flutt á Grensás.“

Nýtt hlutverk heimafyrir

Það kemur síðan að því loks í október að Þuríður fær að snúa aftur heim, eftir slysið sem átti sér stað í apríl. Heim í faðm fjölskyldunnar, til barnanna sinna þriggja og sambýlismanns. Öll áttu þau þó fyrir höndum breytt hlutverk. „Það er það sem er alveg svakalega erfitt. Maður er búinn að vera í bómull í einhverja mánuði og kemur svo heim og uppgötvar þá að maður getur ekki gert neitt sjálfur þar. Ég gat ekki vaskað upp almennilega, ekki bakað, ekki eldað, ekki skúrað gólfið eða þrifið. Ég er líka að koma heim á þeim tíma árs þar sem styttist í jólin.“

Öll fjölskyldan undir

„Það vantaði algjörlega sálræna þáttinn í þetta og eftirfylgni. Því þarna er það ekki bara ég sem er að lenda í einhverju heldur heil fjölskylda. Börnin eru þarna að taka á móti móður sinni í hjólastól. Sem betur fer kom ég ekki döpur, þunglynd og reið heim til mín því það hefði verið enn þá erfiðara fyrir fjölskylduna að takast líka á við það. Ég var líka heppin að því leyti að vinnan mín var þess eðlis að ég gat farið aftur að vinna og hafði þá eitthvað fyrir stafni.“

Ekki staða sem maður óskar börnunum sínum

„Ég reyndi að láta þetta ekki hafa mikil áhrif á þeirra líf og gera þau ekki ábyrg fyrir mér. En þau tóku samt á sig hluti sem þau hefðu annars ekki þurft að gera og jafnaldrar þeirra þurftu ekki að glíma við. Þetta er dálítið breytt hlutverk. Að keyra mömmu sína í hjólastól inní búð eða hjálpa henni upp á gangstéttarkannt. Það er ekki staða sem að maður vill að börnin sín séu í, þótt auðvitað sé gott að þau alist upp við að hjálpa og aðstoða.“

Klesstum á vegg

„Sérfræðingarnir vita það að þegar að maður kemur heim eftir svona þá lendir maður á vegg. Það er í raun bara tímaspursmál. Ég vissi það ekki þegar að ég var útskrifuð og fór heim, en auðvitað kom að því að við klesstum á vegginn og vorum þá búin að fara þetta á hnefanum í marga mánuði. Þá fer ég að hringja og leita aðstoðar en komst þá að því að það var bara enga aðstoð að hafa. Þarna myndi ég vilja sjá sálfræðing sem er sérhæfður í slysaáföllum fjölskyldu.“

Þuríður tjáir sig hér opinskátt í einlægu viðtali um hvernig henni hefur gengið að takast á við erfiðleikana sem áttu eftir að fylgja því að lamast fyrir neðan mittið. Skilnaðinn við sambýlismann sinn, sambandið við foreldra og framandi meðferðarúrræði í Indlandi sem áttu á endanum eftir að verða til þess að Þuríður gæti gengið við göngugrind.

UMMÆLI