Þetta er mín saga – Hver er þín saga?

Ég er fæddur á Akureyri en fjölskyldan bjó í Reykjavík og í Osló um tíma á meðan faðir minn stundaði þar háskólanám. Tvennt var minnisstæðast fyrsta daginn í Noregi, hvað þar var mikið af trjám og svo að kona keyrði leigubíl. Kom aftur til Akureyrar og settist í 4. bekk í Glerárskóla. Bjó í Stórholtinu og svo Byggðavegi og lék knattspyrnu, körfubolta og fleira með Þór, æfði skíði og badminton og var bara eins og blóm í eggi. Fór svo í Menntaskólann á Akureyri, lagði kannski full hart að mér við námið svona eftir á að hyggja. En eignaðist góða vini og kynntist henni Auði, það var ást við fyrstu sýn og þetta eru orðin ein 35 ár síðan. Þá tóku við námsár okkar Auðar í Reykjavík og Kaliforníu.

Fluttum norður til Akureyrar þegar Auði bauðst spennandi starf og eignuðumst okkar fyrsta barn hér. Svo lá leiðin aftur til Reykjavíkur þegar mér bauðst spennandi starf þar. Þrjú börn bættust í hópinn sunnan heiða. Enn toguðu heimahagarnir í okkur og við fluttum norður. Við ætluðum að læra af reynslunni og keyptum hús í Gerðahverfinu sem yrði auðvelt að selja aftur. Erum í því ennþá 15 árum seinna og ekkert fararsnið. Tvö börn bættust við og það var púsluspil að koma sex börnum fyrir í húsinu. Á köflum var ansi fjölmennt í hjónaherberginu.
Það hefur reynst okkur Auði ákaflega vel að að búa með börnin hér á að Akureyri. Þau hafa stundað tónlistarnám, dans og fimleika, knattspyrnu með KA, körfubolta með Þór. Skíðin hafa samt verið rauður þráður, öll börnin lærðu á skíði og tóku þátt í Andrésarleikum í alpagreinum, á bretti eða í skíðagöngu. Alls staðar hafa börnin haft góða aðstöðu, hæfileikaríka og áhugasama þjálfara, flottan félagsskap jafnaldra sinna og trausta umgjörð sem foreldrar veita með ómældri sjálfboðavinnu í kringum íþróttirnar. Börnin hafa öll gengið í Lundarskóla og liðið þar vel og átt góðan tíma. Við Auður sjáum talsverða breytingu á þeim (langa?) tíma sem liðinn er frá því að við vorum í barnaskóla. Núna er miklu meira lagt upp úr jákvæðri framkomu barna í garð hvers annars, allir fá að vera með á skólasýningum og fagmenntað fólk er til taks að bregðast við ef einhver á í erfiðleikum með námið eða vegna hegðunar. Dætur okkar hafa farið í MA þar sem fer saman metnaður í náminu, frábært félagslíf sem að einhverju leyti má þakka bekkjakerfinu, og einstakt samband á milli nemenda og starfsmanna sem byggist á trausti, virðingu og hefðum. Við Auður höfum líka fengið að kynnast heilbrigðiskerfinu hér á Akureyri ansi vel, í kringum meðgöngu og fæðingu, veikindi barnanna í öllum regnbogans litum, beinbrot hér og beinbrot þar. Alltaf höfum við mætt fagmennsku og alúð hjá heilsugæslu og sjúkrahúsi.

Glöggt er gests augað. Eftir að hafa búið í Reykjavík og útlöndum er okkur Auði ljóst hversu ótrúlega miklir kostir fylgja því að búa á Akureyri. Hér er öll þjónusta sem þörf er á í daglegu lífi, góðir skólar, frábær aðstaða til íþrótta- og tómstundastarfs, stuttar vegalengdir, öruggt umhverfi fyrir börnin, fallegur bær. Lengi má gott bæta og L-listinn hefur kynnt margvíslegar hugmyndir í þá veru. Ég vel að búa á Akureyri ,,Hér er best að búa“

Andri Teitsson skipar 2. sæti á L-lista fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri.

UMMÆLI

Sambíó