„Þetta er nagli í kistuna hjá mörgum“

Til stendur að loka göngudeild SÁÁ á Akureyri eins og greint var frá í frétt Kaffið.is í gær. Deildin hefur verið starfrækt á Akureyri frá árinu 1993 en vegna 100 milljóna niðurskurðsáætlun SÁÁ er nú undirbúningur hafinn að lokun deildarinnar.

Í tilkynningu SÁÁ kemur fram að engin framlög hafi komið frá ríkinu vegna göngudeildarinnar á Akureyri undanfarin þrjú ár.

Kjartan Sigtryggson verkefnastjóri menningarmála í Ungmenahúsinu Rósenborg er áhyggjufullur vegna lokunarinnar. Kjartan hefur í starfi sínu unnið mikið með ungum fíklum. Hann segir að þeir einstaklingar sem komi úr meðferðarúrræðum í Reykjavík muni missa allan stuðning og eftirfylgni sem nauðsynleg sé í bataferlinu frá fíknisjúkdómnum

Kjartan Sigtryggsson

„Einnig er búið að klippa á alla ráðgjöf til einstaklinga sem telja sig eiga við sjúkdóminn að stríða, sem hefur haft í för með sér frekari aðstoð inn í meðferðarúrræði á vegum SÁÁ,“ segir Kjartan.

Kjartan er einn þeirra einstaklinga sem hafa nýtt sér þjónustu SÁÁ. „Ef ekki hefði verið fyrir göngudeild SÁÁ á sínum tíma væri ég ekki hér í dag. Í kjölfar viðtala sem ég fór í þegar að ég var fárveikur fór ég inn í frekari meðferðarúrræði. Eftir að ég kom út þá var vikulegur stuðningur hjá göngudeildinni stór hluti af mínum bata.“

Hann segir að með lokuninni sé verið að útiloka það að vísa einstaklingum sem eru veikir inn í ákveðinn farveg sem göngudeildin býður upp á. Ungum fíklum á Akureyri fer fjölgandi og nú sé enginn staður til að vísa til þegar hjálparinnar er þörf.

„Það er skömm að því að ríkið neiti að styrkja SÁÁ og starfsemi hennar. Við verðum að fara að líta á vímuefnavandann frá heilbrigðissjónarmiði en ekki líta á hann sem einhverskonar persónuleikagalla hjá fáum útvöldum. Þetta er nagli í kistuna hjá mörgum sem eru veikir, það er bara þannig.“

Reikna má með því að nú þurfi að senda þá einstaklinga sem glími við fíknivandamál suður og Kjartan ítrekar að staðan sé skammarleg.

„Stjórnvöld eiga að skammast sín fyrir að neita að taka þetta alvarlega.“

Sjá einnig:

SÁÁ hættir starfsemi á Akureyri

UMMÆLI

Sambíó