Þór áfram í Mjólkurbikarnum

Þór áfram í Mjólkurbikarnum

Þórsarar komust áfram í 3. umferð Mjólkurbikarsins í gærkvöldi þegar liðið marði Völsunga á Húsavík eftir vítaspyrnukeppni, 6-7.
Sigurður Marinó Kristjánsson kom Þórsurum yfir á 20. mínútu en Sæþór Olgeirsson jafnaði aðeins tveimur mínútum síðar.
Alvaro Montejo fékk tvö gul spjöld í fyrri hálfleik og var rekinn útaf á 44. mínútu, seinna spjaldið fékk hann fyrir leikaraskap.
Sæþór Olgeirsson fékk einnig að lýta sitt seinna gula spjald og var rekinn útaf á loka mínútu venjulegs leiktíma. Ekki voru skoruð fleiri mörk í venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja leikinn. Bjarki Þór Viðarsson kom Þórsurum aftur yfir með skallamarki eftir hornspyrnu. Það var svo undir blá lok framlengingarinnar að Orri Sigurjónsson braut af sér inní vítateig Þórsara og fékk dæmda á sig vítaspyrnu og sitt seinna gula spjald og því einnig rekinn útaf. Bjarki Baldvinsson skoraði og jafnaði leikinn fyrir Völsunga úr vítinu og kom heimamönnum í vítaspyrnukeppni. Bjarki steig svo fyrstur á vítapunktinn í vítaspyrnukeppninni en skaut þá yfir markið og varð það eina vítaspyrnan sem ekki fór inn í allri vítaspyrnukeppninni og því komust Þórsarar áfram í næstu umferð Mjólkurbikarsins.

Völsungur 2 – 2 Þór (4-5 í vítaspyrnukeppni)
0-1 Sigurður Marinó Kristjánsson (’20)
1-1 Sæþór Olgeirsson (’22)
1-2 Bjarki Þór Viðarsson (’95)
2-2 Bjarki Baldvinsson (‘118, víti)
Rautt spjald: Alvaro Montejo, Þór (’44)
Rautt spjald: Sæþór Olgeirsson, Völsungur (’90)
Rautt spjald: Orri Sigurjónsson, Þór (‘117)

Vítaspyrnukeppnin
Völsungur: Bjarki Baldvinsson skýtur yfir – 2:2
Þór: Sölvi Sverrisson skorar – 2:3
Völsungur: Freyþór Hrafn Harðarson skorar – 3:3
Þór: Guðni Sigþórsson skorar – 3:4
Völsungur: Óskar Ásgeirsson skorar – 4:4
Þór: Nikola Kristinn Stojanovic skorar –  4:5
Völsungur: Elmar Örn Guðmundsson skorar – 5:5
Þór: Sigurður Marinó Kristjánsson skorar – 5:6
Völsungur: Rafnar Máni Gunnarsson skorar – 6:6
Þór: Sveinn Elías Jónsson skorar – 6:7


UMMÆLI