KIA

Þorbergur náði 6. sæti í frægasta fjallahlaupi í heimi

Langhlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson úr UFA náði í dag þeim frábæra árangri að ná 6. sæti í einu frægasta fjallahlaupi í heimi, CCC. Hlaupið sem Þorbergur tók þátt í var í kringum Mont Blanc í Chamonix í Frakklandi og er 101 kílómeter og hæðaraukning er um 6100 m. Þrjú önnur hlaup eru einnig í gangi en CCC hlaupið er það næst lengsta og eru mörg þúsund manns saman komin til að horfa á keppendur og hvetja þá áfram. Þátttakendur í hlaupinu voru um 2150 og þar af margir af sterkustu fjallahlaupurum í heimi. Þorbergur lauk keppni á 11 klukkustundum, 14 mínútum og 22 sec.

Þorbergur lenti þó í því óhappi á leiðinni að vera bitinn af hundi og þurfti því á læknishjálp að halda eftir um 55 km. Þetta tafði hann um  nokkrar mínútur og hann missti nokkra hlaupara fram úr sér á þeim tímapunkti. Hann beit þó frá sér og vann sig upp í 6. sætið.
Þorbergur segir í samtali við Kaffið að þetta sé í fyrsta skiptið sem eitthvað svona komi fyrir.
,,Þetta var bara mikil óheppni, ég var bara að hlaupa í litlu þorpi í gegnum þrönga íbúðargötu og pældi ekkert í þessum hundi. Svo hoppar hann í fótinn á mér og glefsar í mig.“

Þorbergur á hlaupum í Frakklandi. Mynd: Salomon Running.

Þorbergur segist ekki hafa fundið mikið til eftir bitið en hann þurfti þó að stoppa til að fá aðhlynningu að sárinu.
,,Þetta er lífsreynsla. Þetta dró aðeins úr mér en allt í lagi, ég fann ekkert til eftir þetta, ég fann bara miklu meira til allsstaðar annarsstaðar,“ segir Þorbergur og hlær. 

Hann segist hafa verið duglegur að æfa í sumar fyrir keppnina en þó hafi undirbúningstímabilið verið styttra en ella þar sem hann gekk undir aðgerð í apríl og æfingatíminn því knappur.
,,Ég þurfti að koma mér mjög hratt í form eftir aðgerðina og hef bara getað gert ákveðnar æfingar og ekki náð að æfa mikinn hraða. Ég náði samt að æfa mikið í sumar og eyða miklum tíma á fótum,“ segir hann.

Það er mikil stemmning úti í Frakklandi og nokkrir íslendingar eru meðal keppenda. Þorbergur segist vera gríðarlega sáttur með árangurinn og segist mest hafa þurft að nota hausinn til þess að berja sig áfram í gegnum þetta. Aðspurður segist hann hafa verið mjög þreyttur í gær eftir þetta 11 klukkustunda hlaup en í dag sé hann bara góður.
,,Núna er ég bara stirður og með harðsperrur“. 

 

UMMÆLI