Krónan Akureyri

Þorsteinn Jakob er ungskáld Akureyrar 2021Lengst til vinstri er Halldór Birgir Eydal, þá Þorbjörg Þóroddsdóttir og fremstur situr Þorsteinn Jakob Klemenzson. Mynd: Ragnar Hólm.

Þorsteinn Jakob er ungskáld Akureyrar 2021

Þorsteinn Jakob Klemenzson hlaut fyrstu verðlaun í ritlistakeppni Ungskálda 2021 fyrir „Vá hvað ég hata þriðjudaga!“. Í öðru sæti var Halldór Birgir Eydal með „Ég vil ekki kaupa ný jakkaföt“ og Þorbjörg Þóroddsdóttir hreppti þriðja sætið fyrir verk sitt „Mandarínur“. Alls bárust 52 verk frá 29 þátttakendum í keppnina að þessu sinni.

„Fyrr í haust var haldin sérstök ritlistasmiðja í Menntaskólanum á Akureyri í tengslum við Ungskáld 2021 en ekki var unnt að halda slíka smiðju í fyrra vegna Covid-19. Leiðbeinendur voru Fríða Ísberg og Halldór Laxness Halldórsson, eða Dóri DNA. Þátttaka í smiðjunni var mjög góð en rétt er að taka fram að það var á engan hátt skylda að sitja smiðjuna til þess að taka þátt í ritlistakeppninni,“ segir í tilkynningu Akureyrarbæjar.

Í dómnefnd sátu að þessu sinni Finnur Friðriksson, dósent við HA, Hólmfríður Andersdóttir, fyrrverandi bókavörður á Amtsbókasafninu, og Þórður Sævar Jónsson, ljóðskáld og þýðandi, sem jafnframt var formaður dómnefndar.

Að verkefninu standa Amtsbókasafnið á Akureyri, Akureyrarstofa, Ungmennahúsið í Rósenborg, Verkmenntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn á Akureyri. Ungskáldaverkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó