Tónlistarmaðurinn Þorsteinn Kári gaf í gær út plötuna Hvörf sem er önnur breiðskífa hans undir eigin nafni. Hvörf er nú aðgengileg á öllum helstu streymisveitum og kemur út á veglegum tvöföldum vínyl á næstu vikum. Þorsteinn Kári hefur áður gefið út sólóplötuna Eyland árið 2019, ásamt því að vinna í útgáfum ýmissa listamanna síðastliðna tvo áratugi sem framleiðandi, upptökustjóri og hljóðfæraleikari.
Listakollektífið og útgáfufélagið MBS á Akureyri stendur að útgáfu plötunnar. MBS hefur gefið út tónlist síðan 2010 og staðið fyrir tónlistarhátíðinni Mannfólkið breytist í slím frá árinu 2018. Hvörf er 22. útgáfa kollektífsins og hægt er að forpanta plötuna á vínyl í vefverslun MBS.
Hvörf er annað orð yfir breytingar og fjallar platan að miklu leyti um hræringar í lífi listamannsins. Platan er afar persónuleg, en kveikjan að henni var viss leið til að komast í gegnum erfiða tíma þar sem eiginkona Þorsteins hafði greinst með krabbamein og tvö mjög ung börn voru á heimilinu. Að fara úr því að vera án mikillar ábyrgðar yfir í að sinna hlutverki föðurs og næsta aðstandanda sjúklings á sama tíma var krefjandi ferli. Slíkum breytingum fylgja bæði mikið hugarangur og þreyta sem þarf að vera hægt að lifa með og tjá sig um með einhverjum hætti. Verkið er í raun eins og vísir að dagbók þar sem fjallað er um þá daglegu hluti sem þarf að eiga við, t.d. framtíðarótta og innbyrðis háværar raddir sem kveða þarf niður með æðruleysi og rökhugsun. Í slíkum áskorunum þarf maður að geta minnt sig á allt það góða fólk sem fylgir manni og aðstoðar auk þess að sjá alla þá ást sem kemur á yfirborðið þegar hennar er þörf.
Hvörf er fjölbreytt plata með ellefu lögum sem sameinar ýmsa tónlistarstíla og blæbrigði, þar sem sérstök áhersla er lögð á hljóðgervla og umfangsmikinn hljóðheim. Á fyrri plötu Þorsteins, Eyland, sem kom út 2019 var meira um akústísk hljóðfæri, en eftir að hafa spilað tónleika einn með kassagítar þar sem tónlistin týndist í kliði barsins, ákvað hann að skipta um stefnu. Hvörf var hljóðrituð á árunum 2023 til 2024 á Íslandi og í Þýskalandi. Upphaflega stóð aldrei til að gera plötu heldur aðeins nokkur lög, en eins og oft gerist meðal tónlistarmanna opnaðist óvænt sköpunarkraftur hjá Þorsteini Kára sem skilaði 11 lögum, eða um einni klukkustund af efni. Platan var að mestu samin í hljóðveri Þorsteins Kára á Akureyri, en sumir grunnar urðu þó til annars staðar. Til dæmis var lagið Valkyrja að mestu samið á sjúkrahóteli Landspítalans. Þorsteinn hafði tekið með sér lítinn hljóðgervil til að róa taugarnar á meðan hann beið eftir að fá að hitta konuna sína eftir aðgerð. Úr varð lag og texti sem fjallar um þá upplifun. Trommurnar á plötunni voru teknar upp í Berlín þar sem Jón Haukur Unnarsson og Nirmalya Banerjee eyddu þó nokkrum dögum í hljóðveri við að skapa rytmískan grunn verksins. Ásamt Þorsteini Kára koma fram á plötunni: Ingi Jóhann Friðjónsson á bassa, Jón Haukur Unnarsson á trommur og slagverk, Auður Eva Jónsdóttir á selló, Wolfgang Frosti Sahr á saxófón og Egill Örn Eríksson á gítar.
Hægt er að forpanta plötuna Hvörf á vínyl í vefverslun MBS hér:
MBS á samfélagsmiðlum:
UMMÆLI