Fimmtudaginn 3. júlí fara fram síðustu upphitunartónleikarnir fyrir menningarhátíðina Mannfólkið breytist í slím 2025. Tónleikarnir fara fram á Akureyri Backpackers þar sem stíga á stokk Þorsteinn Kári, Strákurinn fákurinn og DJ Doomblade.
Þorsteinn Kári er tónlistarmaður úr Djúpadal í Eyjafirði sem hefur verið virkur í tónlistarsenu fjarðarins í hartnær tvo áratugi. Nýverið gaf Þorsteinn Kári út breiðskífuna „Hvörf“ hjá MBS Skífum, en Þorsteinn Kári er stofnmeðlimur MBS samsteypunnar sem heldur Mannfólkið breytist í slím og hefur starfað innan hennar frá upphafi. „Hvörf“ hefur fengið góðar viðtökur, lagið Hef leitað er til að mynda í reglulegri spilun á Rás 2 en fyrsti stökull plötunnar, lagið Ómar hlaut sömuleiðis reglulega spilun í útvarpi. Platan „Hvörf“ verður fáanleg á tvöföldum vínyl á allra næstu vikum. Þorsteinn Kári hefur verið iðinn við tónlistarsköpun um árabil og gaf til að mynda út plötuna „Eyland“ árið 2019 auk þess að hafa starfað með breiðri flóru listafólks, bæði sem tónskáld, hljóðfæraleikari og framleiðandi.
Strákurinn fákurinn er hljómsveit frá Akureyri sem var stofnuð snemma árs 2024. Sérfræðingar í tónlist og menningu kalla Strákinn fákinn „hamfara og töff no wave“. Sveitin stefnir í upptökur á sinni fyrstu plötu í lok þessa árs. Í broddi fylkingar er Egill Logi Jónasson, einnig þekktur sem Drengurinn fengurinn sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir mynd- og tónlistarsköpun sína. Egill Logi er auk þess bæjarlistamaður Akureyrar 2025 og tónlist hans heyrist reglulega á öldum ljósvakans. Mikil eftirvænting ríkir eftir fyrstu útgáfu Stráksins fáksins en Drengurinn fengurinn hefur verið sérstaklega iðinn við tónlistarútgáfu undanfarin ár og hefur gefið út þrjár breiðskífur það sem af er ári. Tónleikar sveitarinnar á þessum síðustu upphitunartónleikum Mannfólkið breytist í slím 2025 eru auk þess fyrsti leggur tónleikaferðalags þar sem Strákurinn fákurinn treður upp á Hátíðni á Borðeyri daginn eftir.
Menningarhátíðin Mannfólkið breytist í slím 2025 fer svo fram 17. – 19. júlí í Kaldbaksgötu 9 á Oddeyri en sú röð upphitunartónleika sem lýkur í vikunni hefur verið fastur liður í undirbúningi hátíðarinnar undanfarin ár. Með því að standa fyrir smærri viðburðum í aðdraganda Mannfólkið breytist í slím miðar kollektífið MBS að aukinni kynningu á listafólki á Norðurlandi og þá sérstaklega því sem syndir móti straumnum. Mannfólkið breytist í slím er tileinkuð jaðarmenningu í víðasta skilningi orðsins þar sem ægir saman ólíkum straumum og stefnum. Verkefnið hefur þannig getið sér orð fyrir nýstárlega dagskrá og framúrstefnulega framsetningu tónleikasvæðis sem á sér fáar hliðstæður.
Röð atriða á upphitunartónleikunum 3. júlí er:
21:00 – Þorsteinn Kári
21:40 – Strákurinn fákurinn
22:30 – DJ Doomblade
Hlekkur á viðburð:
Þorsteinn Kári – Skuggamynd:
Drengurinn fengurinn – Ekkert rokk í Reykjavík:
Heimasíða MBS:
MBS á samfélagsmiðlum:
UMMÆLI