Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Af hverju endurvinnslulist?

Þriðjudaginn 17. október kl. 17-17.40 heldur myndlistarkonan Jonna (Jónborg Sigurðardóttir) Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Af hverju endurvinnslulist? Í fyrirlestrinum mun hún fjalla um hvernig endurnýting á rusli hefur verið henni efniviður í myndlist undanfarin misseri. Aðgangur er ókeypis.

Jonna útskrifaðist úr fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri vorið 1995 og sem fatahönnuður frá Københavns Mode- og Designskole 2011. Myndlist hennar spannar vítt svið, allt frá málverki til innsetninga. Hún hefur verið mjög virk í listalífinu á Akureyri síðustu árin; haldið einkasýningar, tekið þátt í samsýningum og staðið fyrir uppákomum.

Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Myndlistaskólans á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Georg Óskar, Steinþór Kári Kárason, Hugleikur Dagsson og Jessica Tawczynski.

UMMÆLI