Þrír Íslandsmeistaratitlar í Brasilísku Jiu- Jitsu hjá Atlantic BJJ um helgina

Þrír Íslandsmeistaratitlar í Brasilísku Jiu- Jitsu hjá Atlantic BJJ um helgina

Íslandsmeistaramót í Brasilísku Jiu – Jitsu (BJJ) var haldið um síðustu helgi í húsakynnum Júdófélags Ármanns. Keppt var í NOGI en það er glíma án galla og voru alls 230 keppendur skráðir til leiks, börn, unglingar og fullorðnir. Akureyringar létu sig ekki vanta og fóru samtals 11 keppendur frá glímu klúbbnum Atlantic BJJ frá Akureyri. Árangurinn var vægast sagt glæsilegur hjá hópnum en keppendur komu heim með þrjá Íslandsmeistaratitla, fjögur silfur og tvö brons.

Keppendur keppa í mismunandi flokkum, þeim er skipt eftir þyngd og getustigi. Ungmennum er einnig skipt niður eftir aldri. Flokkar fyrir hvít belti eru fyrir byrjendur. Blá belti eru þeir sem eru aðeins lengra komnir og svo eru þeir færustu með fjólublátt, brúnt eða svart belti í sama flokki. Innan hvers getu stigs er svo keppendum skipt niður eftir þyngd.

Úrslit hjá keppendum í Atlantic – fullorðinsflokkar:

Margfaldur Íslandsmeistari, glímukappinn og þjálfarinn Halldór Logi Valsson sem er nýkomin til liðs við Atlantic BJJ vann gullverðlaun í +100 kg flokki karla, fjólublá, brún og svört belti, ásamt því að vinna silfurverðlaun í opnum flokki karla. Hallgrímur Freyr Baldursson tók við gullverðlaunum í +100 kg flokki karla, blá belti.  

Hin efnilega keppniskona Kristína Marsibil Sigurðardóttir vann silfur í – 65 kg flokki kvenna: fjólublá, brún og svört belti. Halldór Ingi Skúlason hafnaði í öðru sæti í -100 kg flokki karla í fjólublá, brún, svört belti. Unnar Þorgilsson vann silfur í -91 kg flokki karla: blá belti.

Úrslit hjá keppendum í Atlantic – ungmennaflokkar:

Ungi og efnilegi Tumi Briem tók sig til og sigraði sinn flokk -75 kg/16-17 ára drengir. Árni Hrafn Reykjalín Guðmundsson var að taka sín fyrstu skref um helgina í keppnis heimi BJJ og vann brons í +60 kg flokki 12-13 ára drengja. Samir Jónsson vann einnig brons í opnum flokki unglinga, drengir 14-17 ára.

Þjàlfarar og iðkendur Atlantic BJJ eru afar stolt af sínu fólki og óska öllum keppendum til hamingju!

Brasilískt Jiu- Jitsu er ein af vinsælustu bardagaíþróttum í heimi. Vinsældir íþróttarinnar má rekja til þess hvað íþróttin hefur margs konar jákvæðar og uppbyggilegar hliðar fyrir einstaklinginn, sjálfsvörn og skemmtilegt sport. Íþróttin hefur fest sig í sessi hjá íslensku þjóðinni og eru margir starfræktir BJJ klúbbar víðsvegar um landið. Atlantic BJJ opnaði um vorið 2020 og hefur aldeilis fjölgað í iðkenda hópnum  síðan en klúbburinn býður upp á æfingar fyrir börn, unglinga og fullorðna, ásamt fjölda námskeiða sem t.d tengjast sjálfsvörn fyrir vinnustaði eða sérstaka hópa.  Hægt er að fylgjast náið með starfi þeirra í gegnum Instagram, @Atlanticbjj. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó