Þrír hjólreiðamenn úr Hjólreiðafélagi Akureyrar (HFA) eru í sex manna kvennalandsliði Íslands sem keppir á Smáþjóðaleikunum í Andorra í næstu viku, dagana 26.–31. maí. Smáþjóðaleikarnir eru alþjóðlegt íþróttamót sem haldið er annað hvert ár og taka níu smáríki í Evrópu, með innan við milljón íbúa, þátt í leikunum.
Lið Íslands á leikununum eru Hafdís Sigurðardóttir, Silja Jóhannesdóttir og Sóley Kjerúlf Svansdóttir frá HFA, ásamt Bríet Kristý Gunnarsdóttir (Tindur), Sara Árnadóttir (Ægir) og Júlía Oddsdóttir (Breiðablik). Hafdís er þegar komin til Andorra til að aðlagast hæð og æfa sig á tæknilegum fjallaleiðum fyrir keppnina en hún mun keppa í tímatöku mánudaginn 27. maí. Silja og Sóley fara út með stærsta hluta íslenska hópsins á sunnudag og keppa í götuhjólreiðum föstudaginn 31. maí.
Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu frá öllum greinum mótsins á anoc.tv og einnig á samfélagsmiðlum Hjólreiðasambands Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Hjólreiðafélags Akureyrar.
Hér fyrir neðan má sjá dagskrá hjá liðinu:
Mánudagur 27. maí – Tímataka
- Tími: Kl. 9:15 að staðartíma (7:15 að íslenskum tíma)
- Vegalengd: 13,7 km með 225 metra hækkun
- Keppendur:
- Hafdís Sigurðardóttir (HFA)
- Bríet Kristý Gunnarsdóttir (Tindur)
Miðvikudagur 29. maí – Fjallahjólreiðar
- Tími: Kl. 10:00 að staðartíma (8:00 að íslenskum tíma)
- Vegalengd: Fimm 4 km hringir
- Keppandi:
- Björg Hákonardóttir (Breiðablik)
Föstudagur 31. maí – Götuhjólreiðar
- Tími: Kl. 9:00 að staðartíma (7:00 að íslenskum tíma)
- Vegalengd: 67,2 km með 800 metra hækkun. Brautin samanstendur af fimm 9,1 km hringjum og einum 17,2 km fjallhring.
- Íslenska liðið (allir 6 keppendur):
- Hafdís Sigurðardóttir
- Silja Jóhannesdóttir
- Sóley Kjerúlf Svansdóttir
- Bríet Kristý Gunnarsdóttir (Tindur)
- Sara Árnadóttir (Ægir)
- Júlía Oddsdóttir (Breiðablik)
UMMÆLI