Prenthaus

Þrír Norðlendingar með það að markmiði að útrýma einnota kaffimálum á Íslandi

Þrír Norðlendingar með það að markmiði að útrýma einnota kaffimálum á Íslandi

Umhverfismálið er fjölnota kaffimál sem er búið til úr endurnýttum kaffikorgi og öðrum lífrænum efnum. Málinu er ætlað að koma í staðinn fyrir þann gífurlega fjölda einnota kaffimála sem er hent á hverjum degi í landinu. „Við trúum því að samfélagsleg ábyrgð og sjálfbærni séu lykillinn að grænni framtíð og sækjum innblástur í hringrásarhagkerfið,“ segir Elís Orri Guðbjartsson einn af þremur forsprökkum Umhverfismálsins.

Hvert skipti skiptir máli

„Hvert skipti skiptir máli og nú sem aldrei fyrr þurfum við að taka saman höndum og hlúa að umhverfinu. Framtíðin er ekki einnota og það er mikilvægt að við temjum okkur að hugsa um hana þannig,“ segir Elís Orri en ásamt honum eru það Skúli B. Geirdal og Sindri Már Hannesson sem standa að baki verkefninu, en allir eiga þeir rætur að rekja til Norðurlands.

Þrír æskuvinir að norðan

„Við erum þrír æskuvinir sem stöndum að þessu saman. Við gengum allir í sama grunnskóla og vorum saman í bekk í Menntaskólanum á Akureyri. Draumurinn var alltaf að skapa eitthvað saman og láta til okkar taka á sviði umhverfismála. Nú er sá draumur loksins orðin að veruleika að einhverju leyti en við stefnum þó eins langt og við komumst með þetta. Umhverfismálin eru okkur hjartfólgin og við vitum að það er enn mikil vinna fyrir höndum,“ segir Elís Orri.

Framtíðin er mótuð af hversdagslegum ákvörðunum

„Hugmyndin að verkefninu varð til þegar að við áttuðum okkur á því hversu mörg einnota kaffimál eru framleidd undir einn stakan kaffibolla. Okkur þótti mikið misræmi milli líftímans á ruslinu fyrir umhverfið miðað við þann stutta tíma sem einnota kaffimálið þjónar sínum tilgangi. Þá fórum við að vinna í lausn sem gæti hjálpað til við að hreinsa landið. Umhverfismálin verða mikilvægustu málefni komandi kynslóða. Málið er sannarlega stórt og oft erfitt að ná utan um það en við trúum því að hvert skref í rétta átt skipti máli. Framtíðin er mótuð af hversdagslegum ákvörðunum og þar getum við öll gert okkar til þess að skipta máli,“ segir Elís Orri Guðbjartsson að lokum í samtali við Kaffið.is.

Umhverfismálið má nálgast á: www.umhverfismalid.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó