Þrjú ný útilistaverk á NorðurstrandarleiðinniLjósmynd: Markaðsstofa Norðurlands

Þrjú ný útilistaverk á Norðurstrandarleiðinni

Í byrjun ágústmánaðar var þremur nýjum útilistaverkum komið fyrir á Norðurstrandarleiðinni með það að markmiði að efla enn frekar áhuga og kynningu á leiðinni, sem þó er orðin vel þekkt jafnt innlendis sem erlendis. Norðurstrandarleiðin er 900 kílómetra löng ferðamannaleið sem vísar ferðalöngum, jafnt erlendum sem innlendum, frá hringveginum og um norðurströnd Íslands. Frekari upplýsingar er að finna á arcticcoastway.is.

Listaverkin þrjú voru unnin af hópi listafólks frá Úkraínu sem kallar sig UNDRUN/Dyvyna DECOR, en þau hafa reynslu af því að vinna sambærileg verkefni á Íslandi.

Í tilkynningu Markaðsstofu Norðurlands um verkefnið segir að litið hafi verið til sagnaarfs svæðisins og áherslur Norðurstrandarleiðar við hönnun listaverkanna. Á Sauðárkrók var settur upp hestur, myndarammi með Þórdísi spákonu er kominn upp á Skagaströnd og á Hvammstanga má finna sel í fjörunni.

Verkefnið var unnið í samstarfi við Ferðamálasamtök Norðurlands vestra, með styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra.

UMMÆLI