Tímabundinn samningur um rekstur ÖA

Tímabundinn samningur um rekstur ÖA

Í síðustu viku óskuðu Sjúkratryggingar Íslands eftir því við Akureyrarbæ að sveitarfélagið héldi áfram rekstri Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA) tímabundið. Í ljósi fordæmalausra aðstæðna í miðjum heimsfaraldri, hefur Akureyrarbær fallist á að framlengja uppsagnarfrest um fjóra mánuði og annast rekstur ÖA til 30. apríl 2021, gegn því að sá rekstur verði Akureyrarbæ með öllu að kostnaðarlausu og á ábyrgð ríkisins. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef bæjarins. Þar segir enn frekar:

Samningur var undirritaður í gær en um leið hefur Akureyrarbær ítrekað að sveitarfélagið ætlar ekki að reka hjúkrunarheimili í framtíðinni, það sé lögboðið hlutverk ríkisins og samningum var sagt upp síðasta vor.

Viðræður við Sjúkratryggingar Íslands hafi staðið yfir frá því í sumar, eða frá því að Akureyrarbær sagði samningnum upp. Því miður náðist ekki að ljúka yfirfærslunni frá sveitarfélaginu til ríkisins í tæka tíð með farsælum hætti en Akureyrarbær hafði frá upphafi lagt ríka áherslu á að samningar um yfirfærsluna gengju greiðlega fyrir sig.

Samningurinn sem undirritaður var í gær er sem áður segir til fjögurra mánaða og lýtur að rekstri hjúkrunarheimilis, dagdvöl aldraðra og þróunarverkefni á sviði öldrunarþjónustu. Samningurinn er frábrugðinn þeim fyrri og hagstæðari fyrir Akureyrarbæ. Horft verður til þess að ná fram samþættingu við aðra þjónustu við aldraða á Akureyri, auka gæði þjónustunnar og stuðla að því að fólk geti búið sem lengst í heimahúsum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó